Fara í efni
Íþróttir

KA semur við 29 ára miðvörð frá Slóveníu

Knattspyrnudeild KA hefur hefur samið við 29 ára slóvenskan miðvörð, Gaber Dobrovoljc, til loka keppnistímabilsins. Hann kemur til KA frá liði NK Domžale í Slóveníu.

„Það var ljóst að KA liðið þurfti á nýjum leikmanni að halda eftir að lánssamningur við Oleksiy Bykov rann út og erum við afar spennt fyrir því að fá Gaber til liðs við okkur,“ segir á heimasíðu KA í morgun.

„Gaber kemur úr unglingastarfi NK Domžale og hefur leikið allan sinn feril með liðinu fyrir utan eitt ár með Fatih Karagümrük í Tyrklandi. Með Domžale varð Gaber slóvenskur bikarmeistari árið 2017 og lék auk þess 25 Evrópuleiki með liðinu. Á sínum tíma lék Gaber 27 leiki fyrir yngri landslið Slóveníu sem og tvo leiki fyrir B-landslið.“

KA er í 3. sæti Bestu deildarinnar, efstu deildar Íslandsmótsins, með 27 stig eftir 14 leiki og er komið í 8-liða úrslit bikarkeppni KSÍ, Mjólkurbikarsins, þar sem KA-menn taka á móti Ægi 10. ágúst.