KA og ÍBV deildu stigum í spennuleik
KA og ÍBV gerðu jafntefli, 32:32, á Íslandsmótinu í handbolta í KA-heimilinu í kvöld. Eftir að KA-menn náðu mest sex marka forystu í fyrri hálfleik var viðureignin æsispennandi þegar seig á seinni hlutann, Friðrik Hólm Jónsson jafnaði fyrir ÍBV úr vinstra horninu úr síðustu sókn liðsins en KA-menn náðu ekki að nýta lokasóknina; fengu þó leikhlé til að undirbúa hana þegar 22 sekúndur voru eftir. Eyjamenn náðu að verjast aðgerðum heimamanna það vel að Patrekur Stefánsson neyddist til að skjóta utan af velli í blálokin, gegn hávöxnum varnarmönnum gestanna, og hitti ekki markið.
Leikurinn var jafn framan af en KA-menn náðu fantagóðum spretti undir lok fyrri hálfleiks, skoruðu sex mörk gegn einu á sjö mínútna kafla og komust sex mörkum yfir, 20:14.
Á lokasekúndu hálfleiksins braut fyrirliði KA, Jón Heiðar Sigurðsson, sem hafði leikið vel, á Eyjamanni í hraðaupphlaupi og fékk að líta rautt spjald; var rekinn af velli. Gestirnir fengu víti sem Sigtryggur Daði Rúnarsson skoraði úr og staðan í hálfleik var 20:15.
KA-menn máttu illa við því að missa Jón Heiðar af velli því Ólafur Gústafsson kom ekkert við sögu vegna meiðsla, þótt hann væri í leikmannahópnum, og Einar Rafn Eiðsson er fjarri góðu gamni eins og undanfarið, einnig vegna meiðsla.
Eyjamenn söxuðu á forskot heimamanna í seinni hálfeik, náðu reyndar ekki að jafna fyrr korter var eftir, 24:24, KA komst yfir á ný og ÍBV jafnaði ekki aftur fyrr en 30:30 þegar fimm mín. lifðu leiks. KA komst aftur tveimur mörkum yfir en ólseigir gestirnir gerðu tvö síðustu mörkin.
Miklu skipti um þróun mála í seinni hálfleik að Björn Viðar Björnsson varði vel í marki ÍBV en markmenn KA náðu sér ekki á strik í dag. Patrekur Stefánsson var mjög öflugur í sókn KA, svo og Allan Norðberg.
Þetta var sjöundi leikur KA í röð án taps. Eftir leikinn er liðið í 7. sæti deildarinnar með 15 stig úr jafn mörgum leikjum en ÍBV er í 4. sæti með 20 stig eftir 15 leiki.
Smellið hér til að sjá leikskýrsluna.