KA náði ekki að nýta sér liðsmuninn – MYNDIR
KA og Breiðablik gerðu 1:1 jafntefli í 19. umferð Bestu deildar karla, efstu deildar Íslandsmótsins í knattspyrnu. Leikurinn fór fram á Greifavellinum (KA-velli) í dag. Daníel Hafsteinsson gerði mark KA úr vítaspyrnu.
Leikurinn var afar fjörugur og fengu bæði lið góð færi í seinni hálfleik til þess að bæta við mörkum og ná þremur stigum. En engin mörk voru skoruð í seinni hálfleik og lokatölur því 1:1 í skemmtilegum leik. Eftir leikinn er KA-liðið í 8. sæti deildarinnar með 22 stig. Næsti leikur KA er á fimmtudaginn næsta á Laugardalsvelli þar sem liði mætir Club Brugge í Sambandsdeild Evrópu.
Smelltu hér til að sjá leikskýrsluna úr leiknum.
Smelltu hér til að sjá stöðuna í deildinni.
_ _ _
MIKLAR BREYTINGAR Á LIÐUNUM
Bæði liðin standa nú í ströngu í Evrópukeppnum þessar vikurnar og hafa liðin spilað gríðarlega þétt. Það kom því ekki á óvart að báðir þjálfarar gerðu margar breytingar á milli leikja. Hjá KA voru sterkir leikmenn eins og eins og Hallgrímur Mar Steingrímsson og Jóan Edmundsson á bekknum. Hjá Breiðabliki vantaði leikmenn eins og Höskuld Gunnlaugsson og Gísla Eyjólfsson svo dæmi séu tekin.
_ _ _
SVEINN MARGEIR HÁRSBREIDD FRÁ ÞVÍ AÐ NÁ TIL BOLTANS OG SKORA
KA-menn voru sterkari aðilinn í fyrri hálfleik. Þeir héldu boltanum betur og ógnuðu marki andstæðingsins meira. Á 10. mínútu var Sveinn Margeir Hauksson nálægt því að skora. Harley Willard átti þá góðan sprett upp vinstri kantinn og átti stórhættulega sendingu fyrir markið. Sveinn Margeir teygði sig í boltann en vantaði nokkra sentimetra upp á til að ná til boltans.
_ _ _
0:1 – KLÆMINT OLSEN KEMUR BREIÐABLIKI YFIR
Þrátt fyrir góða spilamennsku KA voru það gestirnir sem komust yfir. Klæmint Olsen skoraði þá á 17. mínútu leiksins. Eftir gott spil Breiðabliks komst Ágúst Orri Þorsteinsson upp að endamörkum hægra megin í teignum. Þar átti hann háa sendingu á fjærstöngina þar sem Klæmint var óvaldaður, kom á ferðinni og skoraði með skalla.
_ _ _
BJARGAÐ Á LÍNU FRÁ DUSAN
Dusan Brkovic komst afar nálægt því að skora á 28. mínútu. Eftir hornspyrnu heimamanna náði Dusan góðum skalla að marki sem stefndi í fjærhornið. En á einhvern ótrúlegan hátt náði Eyþór Wöhler að bjarga því að boltinn færi inn.
_ _ _
HARLEY WILLARD MEÐ HÖRKUSKOT
Á 32. mínútu komst Harley Willard nálægt því að skora. Hann fékk boltann rétt fyrir utan teig Blika og átti fast skot á markið. Skotið var hins vegar aðeins of nálægt Brynjari Atla í markinu og markmaðurinn náði að verja boltann í horn.
_ _ _
1:1 VÍTI OG RAUTT – DANÍEL SKORAR AF ÖRYGGI
Þegar komið var fram í uppbótartíma fyrri hálfleiks dró til tíðinda. Kristijan Jajalo fékk boltann eftir sókn Blika og átti frábært útspark langt upp völlinn. Oliver Stefánsson miðvörður Breiðabliks misreiknaði boltann illa sem skoppaði inn í teig gestanna. Þar komst Elfar Árni Aðalsteinsson í boltann en Oliver tók Elfar niður áður en hann náði skoti að marki. Elías Ingi Árnason, dómari leiksins átti engan annan kost en að dæma víti og reka Oliver af velli.
Daníel Hafsteinsson fór á vítapunktinn og skoraði af öryggi. Setti boltann uppi vinstra megin á meðan Brynjar Atli skutlaði sér í rangt horn.
_ _ _
ÍVAR NÁLÆGT ÞVÍ AÐ SKORA SJÁLFSMARK
Gestirnir úr Kópavogi spiluðu allan seinni hálfleikinn manni færri. En þrátt fyrir það var spilamennska þeirra ekkert síðri í seinni hálfleiknum. Þeir héldu boltanum vel og sköpuðu sér oft á tíðum góð færi. Á 50. mínútu var Ívar Örn Árnason nálægt því að skora sjálfsmark.
Eyþór Wöler átti þá frábæra fyrirgjöf inn teig frá hægri. Ívar renndi sér fyrir boltann og komst inn í sendinguna. Það fór ekki betur en það að hann stýrði boltanum í stöngina og fram hjá markinu. Þarna sluppu heimamenn með skrekkinn.
_ _ _
ELFAR ÁRNI Í DAUÐAFÆRI EN SKALLINN YFIR MARKIÐ
Á 57. Mínútu fékk Elfar Árni Aðalsteinsson frábært tækifæri til að koma KA-mönnum yfir. Ingimar Stöle átti þá góðann sprett upp hægri kantinn og átti góða sendingu fyrir markið. Þar var Elfar óvaldaður á markteignum en skallinn hans fór yfir markið.
_ _ _
GOTT SAMSPIL HEIMAMANNA EN SKOT HALLGRÍMS RÉTT YFIR
Seinni hálfleikur var fjörugur og opinn. Á 70. mínútu áttu varamennirnir Hallgrímur Mar Steingrímsson og Jóan Edmundsson flottan samleik. Jóan átti gott hlaup aftur fyrir vörn gestanna og síðan frábæra hælsendingu á Hallgrím sem átti hörku skot við teiginn sem fór rétt yfir markið.
_ _ _
ÓTRÚLEGUR UPPBÓTARTÍMI EN BOLTINN VILDI EKKI INN
Uppbótartíminn var afar skrautlegur þar sem bæði lið reyndu hvað þau gátu til að stela sigrinum. Daníel Hafsteinsson fékk gott færi inn í teig KA-manna en átti ekki nógu góða snertingu og Brynjar Atli varði vel í markinu.
Örskömmu eftir færi Daníels slapp Kristinn Steindórsson einn í gegn frá miðju og var hann í kjörstöðu til að tryggja Blikum sigurinn. Kristinn var lengi að athafna sig og skot hans fór yfir markið. Eftir klúður Kristins fengu KA-menn annan séns í teignum en hetjuleg tækling frá Kristófer Inga kom í veg fyrir að KA-menn næðu að skora. Ótrúlegar lokamínútur en inn vildi boltinn ekki og lokatölur 1:1.