Fara í efni
Íþróttir

KA-menn unnu annan meistaraleikinn í blakinu

Meistarar meistaranna í blaki 2023, karlalið KA. Ljósmynd: Þórir Tryggvason

Karlalið KA er meistari meistaranna í blaki eftir 3-1 sigur á Hamri í KA-heimilinu í kvöld. Fyrr í dag laut kvennalið KA í lægra haldi fyrir HK í oddahrinu.

  • KA - Hamar 3-1 (23-25, 25-19, 25-22, 25-19)

KA-menn lentu undir þegar Hamar vann fyrstu hrinuna 25-23, en létu það ekki á sig fá og unnu næstu þrjár hrinur og leikinn þar með 3-1. Fyrsta hrinan var jöfn lengst af, Hamar náði frumkvæðinu þegar á leið og vann hrinuna 25-23. KA-menn náðu að jafna í 1-1, höfðu forystu alla aðra hrinuna og unnu hana 25-19. KA náði forystunni í leiknum með því að vinna þriðju hrinuna 25-22 og tryggði sér svo titilinn með 25-19 sigri í fjórðu hrinunni.

Sigurbjörn Árni Arngrímsson, dómari leiksins, afhendir Birki Frey Elvarssyni verðlaunin. Ljósmynd: Þórir Tryggvason.

Hlé á bikaraflóði kvennaliðsins

Margföldum meisturum KA í blaki kvenna undanfarinna ára tókst ekki að halda bikaræðinu áfram þegar liðið mætti HK í meistarakeppni Blaksambandsins í KA-heimilinu í dag. Gestirnir úr Kópavoginum unnu í oddahrinu.

  • KA - HK 2-3 (22-25, 16-25, 26-24, 25-21, 11-15)

HK vann fyrstu tvær hrinurnar, en KA-stelpur gáfust ekki upp og jöfnuðu í 2-2. HK vann oddahrinuna og hirti þar með fyrsta bikarinn á þessu keppnistímabili.