KA-menn taka á móti botnliði Skagamanna
KA og ÍA mætast í Bestu deildinni í knattspyrnu, efstu deild Íslandsmótsins, í dag klukkan 16.00 á nýja Greifavellinum á KA-svæðinu. Bæði lið eiga 16 leiki að baki, KA er í 2.-3. sæti deildarinnar með 30 stig en Skagamenn reka lestina; eru í neðsta sæti með aðeins átta stig.
KA vann fyrri leik liðanna í sumar mjög örugglega á Akranesi 15. maí, 3:0, þar sem Daníel Hafsteinsson, Elfar Árni Aðalsteinsson og Jakob Snær Árnason skoruðu. Þegar liðin mættust síðasta á Akureyri unnu KA-menn líka 3:0, 29. ágúst í fyrra á Greifavellinum hinum eldri, Akureyrarvelli. Þá skoruðu Bjarni Aðalsteinsson, Jakob Snær og Hallgrímur Mar Steingrímsson.
Lið KA er jafnt Víkingi í 2.-3. sæti deildarinnar með 30 stig, Víkingar eiga að vísu einn leik til góða en með sigri í dag verður KA-liðið í mjög góðri stöðu. KA hefur unnið fjóra af síðustu fimm leikjum en Skagamenn hafa hins vegar tapað síðustu sex og hafa raunar aðeins unnið einn leik í sumar; þeir lögðu Íslands- og bikarmeistara Víkings 3:0 á Akranesi 24. apríl.
Arnar Grétarsson, þjálfari KA, stýrir liðinu ekki í dag; þetta er annar leikur hans af fimm í banni. Liðið vann FH 3:0 í þeim fyrsta, KA-hefur áfraýjað banninu en standi það missir Arnar einnig af leikjum gegn Stjörnunni, Víkingi og Fram.