Fara í efni
Íþróttir

KA-menn steinlágu fyrir Keflvíkingum

Keflvíkingurinn Joey Gibbs og KA-maðurinn Dusan Brkovic í deildarleik liðanna á Akureyri á dögunum. Gibbs skoraði tvívegis í dag og mark sem Christian Volesky gerði kom eftir slæm mistök Brkovic. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

KA verður ekki bikarmeistari í knattspyrnu í sumar frekar en önnur akureyrsk lið. KA-menn sóttu Keflvíkinga heim í 16-liða úrslitum Mjólkurbikarkeppninnar í dag og töpuðu 3:1.

Keflvíkingar komust í 3:0 áður en Sebastian Brebels lagaði stöðuna með marki þegar skammt var til leiksloka, en KA-menn ógnuðu ekki sigri heimamanna.

KA sigraði Keflvíkinga nýverið á heimavelli á Íslandsmótinu í hörkuleik. Drengirnir úr Bítlabænum sýndu þar að þeir geta verið erfiðir viðureignar og þótt þeir séu 10 stigum á eftir KA-mönnum í deildinni er lið þeirra gott, þegar sá gállinn er á leikmönnum. Þess vegna er með ólíkindum hve leikmenn KA virkuðu slakir og áhugalausir í fyrri hálfleiknum í kvöld. Farseðill í átta liða úrslit bikarkeppninnar var í boði, en ekki að sjá að Akureyringar hefðu sérstakan áhuga á að halda ferðalaginu áfram.

Keflvíkingar gerðu reyndar bara eitt mark í fyrri hálfleik, Joey Gibbs með mjög góðu skoti úr vítateignum en strax á fyrstu mínútu seinni hálfleiks færði Dusan Brkovic Keflvíkingum dauðafæri á silfurfati með lélegri sendingu aftur á Steinþór markvörð, Christian Volesky náði boltanum, lék á Steinþór og skoraði auðveldlega. Gibbs skoraði svo öðru sinni og kom Keflvíkingum í 3:0 á 73. mínútu með hörkuskalla eftir aukaspyrnu. Áðurnefndur Brkovic átti að gæta markaskorarans en tókst ekki. Varnarmaðurinn hefur verið afar traustur í mörgum leikja KA í sumar en annað var upp á teningnum í dag, þótt fráleitt sé við hann einan að sakast. Liðsheildin var einfaldlega slök.

Belginn Brebels minnkaði muninn sem fyrr segir. Það var á 83. mín. að hann tók aukaspyrna vinstra megin við vítateiginn og tókst á ótrúlegan að skora. Varnarleikur heimamanna alls ekki til fyrirmyndar í það skipti en það skipti ekki máli þegar upp var staðið.

Smellið hér til að sjá leikskýrsluna.