Fara í efni
Íþróttir

KA menn skutust upp um nokkur sæti

Árni Bragi Eyjólfsson var frábær í sókninni í dag. Ljósmynd: Þórir Tryggvason.

KA-menn unnu Gróttu nokkuð örugglega, 37:33, á Seltjarnarnesi í dag þegar Íslandsmótið í handbolta hófst á ný eftir margra vikna hlé vegna Covid. Leiknum hafði verið frestað fyrr í vetur þannig að nú hafa bæði lokið 15 leikjum eins og flest hin.

Með sigrinum skaust KA-liðið úr 9. sæti Olísdeildarinnar og er nú jafnt Val og ÍBV með 17 stig, í 4. til 6. sæti! Fram leikur í kvöld við FH og gæti með sigri farið í 18 stig.

Eins og tölurnar bera með sér var ekki boðið upp á merkilegan varnarleik í dag en hraðinn og fjörið þeim mun meira. Menn voru greinilega mjög spenntir að fá loks að keppa á ný!

Heimamenn í Gróttu yfirleitt skrefinu á undan fram yfir miðjan fyrri hálfleikinn en þá skriðu KA-menn fram úr, munurinn var tvö til þrjú mörk. Í hálfleik var staðan 18:16 fyrir KA. Fyrsta kortérið í seinni hálfleik hélst tveggja til þriggja marka munur, eftir það náðu gestirnir nokkrum sinnum fjögurra marka forskoti, Grótta minnkaði reyndar muninn í eitt mark, 29:28, þegar tíu mínútur voru eftir, en KA-menn skiptu þá um gír í smá stund og tryggðu sér öruggan sigur.

Árni Bragi Eyjólfsson fór hamförum í sóknarleik KA í dag, aðrir voru býsna sprýkar og mikilvægt fyrir KA að Ólafur Gústafssson er loks leikfær á ný eftir langt hlé vegna meiðsla. 

Mörk KA: Árni Bragi Eyjólfsson 12 (1 víti), Áki Egilsnes 8, Ólafur Gústafsson 5, Jóhann Geir Sævarsson 4, Einar Bragi Stefánsson 3, Jón Heiðar Sigurðsson 3 og Patrekur Stefánsson 2.

Varin skot: Bruno Bernat 10 (1 víti), Nicholas Satchwell 5.

Smellið hér til að sjá alla tölfræði úr leiknum.