Fara í efni
Íþróttir

KA-menn öruggir með sæti í Evrópukeppni

KA-menn fagna sigurmarkinu gegn KR á Greifavellinum um síðustu helgi. Ljósmynd: Sara Skaptadóttir

KA-menn leika í Evrópukeppni í knattspyrnu næsta sumar. Það varð endanlega ljóst eftir að Víkingar sigruðu Valsmenn í Bestu deildinni í kvöld. Fyrir leikinn var Valur var eina liðið sem gat haft betur í baráttunni um Evrópusæti en nú er ljóst að KA endar ekki neðar en í 3. sæti deildarinnar, sem gefur Evrópusæti fyrst Víkingur varð bikarmeistari um helgina.

KA lék síðast í Evrópukeppni sumarið 2003, Intertoto keppninni. KA mætti þá Sloboda Tuzla frá Bosníu, fyrri leiknum lauk 1:1 ytra og niðurstaðan var sú sama á Akureyrarvelli 28. júní. Það var Hreinn Hringsson sem skoraði fyrir KA í fyrri leiknum en Þorvaldur Makan Sigbjörnsson í þeim seinni. Þar sem liðin stóðu hnífjöfn var gripið til vítaspyrnukeppni og þá höfðu Bosníumennirnir betur. 

Þorvaldur Makan Sigbjörnsson fagnar marki sínu í síðasta Evrópuleik KA, sumarið 2003 á Akureyrarvelli. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson