KA-menn og Þórsarar á heimavelli í dag
Sparkað verður í bolta beggja vegna Glerár í dag, því bæði KA og Þór leika á heimavelli á Íslandsmótinu í knattspyrnu. Báðir leikirnir hefjast klukkan 14.00.
KA tekur á móti Fylki í efstu deild Íslandsmótsins, Pepsi Max deildinni. Þetta er þriðja síðasta umferð deildarinnar, KA-menn eru sem stendur í fimmta sæti, tveimur stigum á eftir KA og þremur á eftir Val, þannig að baráttan um sæti í Evrópukeppni er í algleymingi. Fylkismenn berjast hins vegar fyrir lífu sínu í deildinni. Í næstu umferð mætir KA liði Íslandsmeistara Vals í Reykjavík en tekur á móti FH í lokaumferðinni, laugardaginn 25. september.
Þór fær Selfoss í heimsókn í dag í næst efstu deild, Lengjudeildinni. Þórsarar eru í 10. sæti deildarinnar með 20 stig og Selfyssingar sæti ofar með aðeins einu stigi meira.
- Þetta er síðasti heimaleikur Þórs í sumar, og þar af leiðandi síðasti heimaleikur Jóhanns Helga Hannessonar, markahæsta leikmanns Þórs frá upphafi, því hann leggur skóna á hilluna í lok móts. Þórsarar mæta Þrótti í Reykjavík í síðustu umferðinni.