KA-menn komnir í vænlega stöðu
KA-menn unnu mjög dýrmætan sigur á Fram í kvöld í baráttunni um sæti í átta liða úrslitakeppni um Íslandsmeistaratitilinn í handbolta. Liðin mættist í Fram-heimilinu, heimamenn voru sex mörkum yfir í hálfleik, 15:9, en með gríðarlegri seiglu sneru KA-menn leiknum sér í hag í seinni hálfleik og sigruðu 26:24.
Framarar léku gríðarlega vel í fyrri hálfleik og framliggjandi vörn þeirra kom KA-mönnum í opna skjöldu. Gestirnir náðu sér engan vegin á strik í fyrri hálfleiknum en allt annað var upp á teningnum síðari hluta leiksins. Þá léku KA-menn nánast við hvern sinn fingur langtímum saman en heimamenn misstu hins vegar móðinn.
KA er komið með 19 stig og er í sjötta sæti eftir leikina sem fram fóru síðar í kvöld. Stjarnan og Afturelding eru bæði með 18 stig en Fram er í níunda sæti með 14 stig þannig að staða KA er afar vænleg í keppninni um sæti í átta liða úrslitunum.
Óðinn Þór Ríkharðsson gerði níu mörk fyrir KA í kvöld og Allan Nordberg sex.
Smellið hér til að sjá alla tölfræði úr leiknum.