Fara í efni
Íþróttir

KA-menn komnir heim til frambúðar

Lokahönd lögð á verkið! Ingvar Már Gíslason, fyrrverandi formaður KA, með borvélina, Heiða Berglind Magnúsdóttir og Jóhann Rúnar Sigurðsson á KA-svæðinu fyrr í dag. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Þau kaflaskil verða í dag í sögu Knattspyrnufélags Akureyrar að héðan í frá verða heimaleikir meistaraflokks karla í knattspyrnu á svæði félagsins við Dalsbraut. Þar var nýlega lagt gervigras í hæsta gæðaflokki og búið er að setja upp stúku til bráðabirgða eins og Akureyri.net hefur áður greint frá.

KA lék gegn Reyni frá Sandgerði í bikarkeppninni á dögunum, en fyrsti leikur í Bestu deildinni, efstu deild Íslandsmótsins, hefst í dag klukkan 18.00 þegar Framarar koma í heimsókn. Verið var að fínpússa eitt og annað þegar Akureyri.net leit við á svæðinu í dag.

KA-menn hafa leikið á Akureyrarvelli í áratugi en í ár og í fyrra hafa nokkrir leikir  á Íslandsmótinu farið fram á Dalvíkurvelli. Lið KA lék stöku sinnum á félagssvæði sínu fyrir margt löngu, snemma sumars áður en Akureyrarvöllur var orðinn leikhæfur, en nú má segja að KA-menn séu komnir heim fyrir fullt og allt. Innan nokkurra missera verður svo tilbúinn annar gervigrasvöllur á svæðinu, framtíðarkeppnisvöllur með stúku.

Mikið húllumhæ verður á KA-svæðinu í tilefni dagsins, meðal annars verður Lúðrasveit Akureyrar á staðnum.

Vert er að geta þess að KA og veitingahúsið Greifinn hafa endurnýjað samstarfssamning og nýi heimavöllurinn verður kallaður Greifavöllurinn næstu tvö árin, eins og Akureyrarvöllur síðustu ár.

Kristján Þorsteinsson, starfsmaður í KA-heimilinu, og Sævar Pétursson, framkvæmdastjóri KA,  á svæðinu fyrr í dag.