Fara í efni
Íþróttir

KA-menn í sögulegri viðureign á Ísafirði

Dagur Gautason og félagar taka þátt í sögulegum leik á Ísafirði í kvöld. Dagur hér í fyrsta deildarleiknum með KA í tvö ár, gegn ÍBV á dögunumm þar sem hann gerði sjö mörk. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

KA-menn leika við Hörð á Ísafirði í 3. umferð Olís deildarinnar í handbolta. Leikurinn hefst klukkan 18.00 og verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.

Mikið verður um dýrðir í íþróttahúsinu á Torfnesi enda sögulegur dagur runninn; þetta er fyrsti heimaleikur Ísfirðinga í efstu deild Íslandsmótsins í handbolta.

Þetta er annar leikur Harðar í deildinni. Nýliðarnir réðust ekki á garðinn þar sem hann er lægstur í fyrstu umferðinni, því þeir mættu Íslandsmeisturum Vals í Reykjavík og töpuðu með 10 marka mun.

KA-menn hafa lokið tveimur leikjum, þeir töpuðu fyrst fyrir Haukum í Hafnarfirði en gerðu svo jafntefli við ÍBV í hörkuleik í KA-heimilinu um síðustu helgi.