Fara í efni
Íþróttir

KA mætir Arnarslausum Valsmönnum í dag

Arnar Grétarsson mun ekki stýra Valsmönnum af hliðarlínunni gegn KA í dag þar sem hann fékk tveggja leikja bann eftir brottvísun í leik Vals og Breiðabliks í síðustu umferð. Myndin er frá því í ágúst 2022 þegar Arnar fékk brottvísun í leik KA og KR og hlaut í kjölfarið fimm leikja bann. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Sjötta umferð Bestu deildar karla í knattspyrnu hófst í gær og verður fram haldið í dag. KA-menn mæta Val á Hlíðarenda. Arnar Grétarsson verður í stúkunni.

Eftir fimm umferðir sitja Valsemnn í 6. sætinu með átta stig, en KA er í næstneðsta sæti deildarinnar með tvö og hefur ekki enn unnið leik í Bestu deildinni það sem af er sumri. Athyglivert þó að þessi lið hafa bæði skorað sex mörk í fimm leikjum.

Arnar Grétarsson, fyrrum þjálfari KA, mun ekki stýra sínum mönnum í Val af hliðarlínunni í leiknum því hann var af aga- og úrskurðarnefnd KSÍ úrskurðaður í tveggja leikja bann eftir brottvísun sem hann fékk vegna hegðunar í leik liðsins þegar Valsmenn sigruðu Breiðablik á Kópavogsvelli. Arnar mætir þó KA-mönnum á öðrum vígstöðvum því nú styttist eflaust í niðurstöðu Héraðsdóms Norðurlands eystra í máli sem hann höfðaði gegn félaginu vegna deilna um bónusgreiðslur vegna árangurs í Evrópukeppni.

Valur vann Breiðablik í síðustu umferð eins og áður var getið, en KA náði í sitt annað stig með 1:1 jafntefli við KR á heimavelli. Athygli vakti að í þeim leik var Viðar Örn Kjartansson ekki í leikmannahópi KA og „er að vinna í sín­um mál­um varðandi form og fleira,“ eins og Hallgrímur Jónasson, þjálfari KA, sagði í viðtali á Stöð 2 sport fyrir leikinn gegn KR. Um fátt er meira rætt þessa dagana en veru Viðars Arnar hjá KA og hvað framtíðin ber í skauti sér í því sambandi.

Eflaust verður við ramman reip að draga hjá KA-mönnum þegar þeir mæta á N1 völlinn að Hlíðarenda enda Hlíðarendaliðið með gríðarlega öflugan leikmannahóp. Þeim hefur þó ekki gengið alveg sem skyldi það sem af er sumri miðað við væntingar, tilkomu Gylfa Sigurðssonar og fleira, hafa aðeins unnið tvo leiki af fimm. Stuðningsmenn KA bíða hins vegar enn eftir fyrsta sigrinum. Eftir leik liðsins gegn KR ræddu sérfræðingar meðal annars um stemningsleysi í KA-liðinu og veltu fyrir sér orsökum. Þeir geta þó gert hverjum sem er skráveifu ef þeir komast á skrið og ná að lyfta andanum.

Leikur Vals og KA hefst kl. 17.00.