Fara í efni
Íþróttir

KA heima gegn ÍBV í dag, Þór úti gegn Fylki

Alexander Már Þorláksson, til vinstri, er nýlega kominn í Þór og hefur gert þrjú mörk í fyrstu tveimur leikjunum, og Nökkvi Þeyr Þórisson, til hægri, er markahæsti maður KA í sumar. Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson

Lið KA og Þórs verða bæði í eldlínunni í dag á Íslandsmótinu í knattspyrnu. Leikir beggja hefjast klukkan 16.00.

KA-menn taka á móti Vestmannaeyingum á Greifavelli hinum síðari, nýja gervigrasvellinum á félagssvæði KA, og Þórsarar mæta Fylkismönnum í Reykjavík.

KA er í fimmta sæti Bestu deildarinnar, efstu deildar Íslandsmótsins, með 18 stig eftir 11 leiki, en ÍBV vermir neðsta sætið, hefur 5 stig að loknum 11 leikjum.

KA vann fyrri leik liðanna í sumar 3:0 í Eyjum þar sem Sveinn Margeir Hauksson, Nökkvi Þeyr Þórisson og Hallgrímur Mar Steigrímsson skoruðu. KA hefur skorað 16 mörk í sumar en Eyjamenn aðeins níu.

  • Vert er að geta þess að leikurinn átti upphaflega að hefjast klukkan 14.00 en var seinkað til kl. 16.00.

Þór sækir Fylki heim í Árbænum í Reykjavík í Lengjudeildinni, næst efstu deild Íslandsmótsins. Lið Fylkis er í öðru sæti deildarinnar með 18 stig eftir 10 leiki en Þórsarar eru í þriðja neðst sæti með 11 stig, einnig eftir 10 leiki.

Þórsarar hafa rétt úr kútnum í tveimur síðustu umferðum. Eftir að illa gekk að skora framan af móti hefur Þórsliðið gert átta mörk í síðustu tveimur leikjum; það lagði Þrótt úr Vogum að velli 5:0 og síðan KV 3:1. Báðir leikirnir voru á Þórsvellinum (SaltPay vellinum), Þróttur og KV eru í tveimur neðstu sætum deildarinnar og Þór í því þriðja neðsta.