Fara í efni
Íþróttir

KA getur gulltryggt sæti í úrslitakeppninni

Arnór Ísak Haddsson og félagar í KA taka á móti Selfyssingum í kvöld. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

KA-menn taka á móti Selfyssingum í kvöld þegar næst síðasta umferð Olís deildar Íslandsmóts karla í handbolta fer fram. Baráttan um tvö síðustu sætin í úrslitakeppni átta efstu liðanna um Íslandsmeistaratitilinn er í algleymingi og mjótt á munum. 

KA gulltryggir sér sæti í úrslitakeppninn með sigri í kvöld. Jafntefli gæti dugað og jafnvel þótt KA tapi gæti liðið  komist í úrslitakeppnina í kvöld en það veltur á úrslitum í leik ÍBV og Gróttu í Eyjum.

KA er með 20 stig en Grótta 17. Vinni Grótta tvo síðustu leikina fer liðið í 21 stig – en svo skemmtilega vill til að Grótta og KA mætast á Seltjarnarnesi í síðustu umferð deildarinnar á sunnudaginn. 

Sigri KA-menn í tveimur síðustu leikjunum geta þeir best náð fimmta sæti og fá því ekki oddaleik heima í úrslitakeppninni.

Baráttan á toppnum er líka hörð og í kvöld mætast einmitt tvö efstu liðin, Valur og Haukar, í Reykjavík.

Leikur KA og Selfoss í kvöld verður sýndur beint á sjónvarpsrás KA, smellið hér til að horfa. Flautað verður til leiks á öllum vígstöðum klukkan 19.30 í kvöld.

Staðan í deildinni er þessi fyrir tvær síðustu umferðirnar:

  • Haukar 20 leikir – 32 stig
  • Valur 20 leikir – 30 stig
  • ÍBV 20 leikir – 27 stig
  • FH 20 leikir – 27 stig
  • Selfoss 20 leikir – 24 stig
  • Stjarnan 20 leikir – 22 stig
  • KA 20 leikir – 20 stig
  • Afturelding 20 leikir – 19 stig
    ........
  • Grótta 20 leikir – 17 stig
  • Fram 20 leikir – 15 stig
  • HK 20 leikir – 4 stig
  • Víkingur 20 leikir – 3 stig

Liðin sem eru í baráttu um tvö síðustu sætin í úrslitakeppninni eiga þessa leiki eftir:

    • KA – Selfoss
    • Grótta – KA

    • FH – Afturelding
    • Afturelding – Fram

    • ÍBV – Grótta
    • Grótta – KA

  • Fram – Stjarnan
  • Afturelding – Fram