Fara í efni
Íþróttir

KA gegn Haukum eða Val í úrslitakeppninni

Jónatan Magnússon, þjálfari KA, ræðir við sína menn í leiknum í kvöld. Ljósmynd: Egill Bjarni Friðjónsson.

KA er komið í átta liða úrslit Íslandsmótsins í handbolta. Liðið endar í sjöunda eða áttunda sæti deildarinnar og mætir því annað hvort Val eða Haukum í fyrstu umferð úrslitakeppninnar. Úr því fæst skorið þegar síðasta umferðin fer fram á sunnudaginn.

Selfyssingar hefndu fyrir tapið í undanúrslitum bikarkeppninnar á dögunum þegar þeir sóttu KA-menn heim í kvöld í Olís deildinni. Gestirnir unnu sannfærandi sigur, 30:25, en KA-menn sluppu með skrekkinn því Grótta tapaði fyrir ÍBV í Eyjum og getur þar af leiðandi ekki náð KA lengur.

Framan af leiknum í kvöld virtist sem liðin myndu halda áfram þar sem frá var horfið síðast; KA vann bikarleikinn eftir framlengingu og fram í miðjan fyrri hálfleik var allt í járnum. Þegar var staðan var 8:8 urðu hins vegar vatnaskil; Selfyssingar stungu af og staðan var 16:11 í hálfleik.

Gestirnir voru áfram mun sprækari framan af seinni hálfleik en eftir að Arnór Ísak Haddsson kom inn á hjá KA stórlagaðist sóknarleikur liðsins og með hann fremstan í flokki tókst KA-mönnum að minnka muninn niður í tvö mörk, 23:21, þegar átta mínútur voru eftir. Nær komust þeir hins vegar ekki.

Um það þarf ekki að hafa mörg orð að KA-liðið var langt frá sínu besta í kvöld. Satchwell var góður í markinu og Arnór Ísak lék vel sem fyrr segir en aðrir sýndu ekki sitt rétta andlit.

Mörk KA: Arnór Ísak Haddsson 6, Óðinn Þór Ríkharðsson 6 (5 víti), Arnar Freyr Ársælsson 3, Einar Birgir Stefánsson 3, Ólafur Gústafsson 3, Allan Norðberg 2, Jón Heiðar Sigurðsson 1, Patrekur Stefánsson 1.

Varin skot: Nicholas Satchwell 12, þar af 3 víti (29,3%).

Smellið hér til að sjá alla tölfræði úr leiknum

Síðasti leikur KA í deildarkeppninni er gegn Gróttu á Seltjarnarnesi á sunnudaginn. Þá eru þessir leikir á dagskrá:

  • Grótta – KA
  • Afturelding – Fram
  • Haukar – FH
  • Stjarnan – Víkingur
  • HK – ÍBV
  • Selfoss – Valur

Valur burstaði Hauka í kvöld og eru liðin því jöfn í efsta sæti með 32 stig. Bæði lið eiga erfiðan leik á sunnudaginn en Valsmenn verða óneitanlega að teljast líklegri deildarmeistarar. Efsta liðið mætir því áttunda og neðsta í fyrstu umferð úrslitakeppninnar, liðið í öðru sæti mætir því sem endar í sjöunda sæti og þannig koll af kolli.

Afturelding hafði betur í innbyrðis leikjunum við KA í vetur, vann annan og hinn fór jafntefli. Verði liðin jöfn að stigum endar KA því í áttunda sæti. Nái KA hins vegar stigi gegn Gróttu og Afturelding vinni ekki Fram er KA öruggt með sjöunda sæti.

Sigri Fram lið Aftureldingar endar Fram í áttunda sæti en Afturelding situr eftir með sárt ennið.

Ljósmynd: Egill Bjarni Friðjónsson.