Íþróttir
KA fær ÍBV í heimsókn í Bestu deildinni
15.04.2023 kl. 12:00
Varnarmaðurinn Ívar Örn Árnason gefur aldrei þumlung eftir. Hér sækir hann að marki KR í fyrstu umferð Bestu deildarinnar á dögunum. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson
KA tekur á móti ÍBV í dag í annarri umferð Bestu deildarinnar, efstu deildar Íslandsmótsins í knattspyrnu. Flautað verður til leiks kl. 16:00 á Greifavellinum sunnan við KA-heimilið.
KA gerði 1:1 jafntefli við KR á heimavelli í fyrstu umferðinni en ÍBV tapaði þá 2:1 fyrir Val í Reykjavík. Upphaflega átti leikur dagsins að fara fram í Vestmannaeyjum, grasvöllurinn þar er hins vegar ekki tilbúinn til notkunar og var leikurinn því færður norður. Viðureign liðanna í Eyjum verður 28. júní.
Það var Þorri Mar Þórisson sem tryggði KA stig gegn KR með laglegu marki í blálokin eftir að gestirnir höfðu náð forystu með marki úr vítaspyrnu nokkrum mínútum áður.
- Umfjöllun Akureyri.net um fyrsta leikinn: Jafnt hjá KA og KR í fyrsta leik – MYNDIR
Á Facebook síðu KA segir í morgun:
Við grillum að sjálfsögðu fyrir leik og eina vitið að mæta snemma og taka virkan þátt í stemningunni fyrir leik. Fyrir þá sem ekki komast er leikurinn í beinni á hliðarrás Bestu deildarinnar á Stöð 2 Sport, áfram KA!