Fara í efni
Íþróttir

KA fær Breiðablik í heimsókn í dag

Spánverjinn Rodri tryggir KA sæti í úrslitum bikarkeppninnar með marki í vítaspyrnukeppni gegn Breiðabliki í undanúrslitunum í byrjun júlí. Anton Ari Einarsson giskaði ekki rétt í þetta sinn. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

KA tekur á móti Breiðabliki í dag í Bestu deildinni, efstu deild Íslandsmótsins í knattspyrnu. Leikur liðanna á Greifavellinum sunnan við KA-heimilið hefst klukkan 16.00.

Í mörg horn er að líta hjá báðum liðum þessa dagana. KA lék gegn Club Brugge í Belgíu á fimmtudaginn í Sambandsdeild Evrópu og sama kvöld áttu Blikarnir í höggi við Zrijnski í Bosníu í Evrópudeildinni. Bæði lið töpuðu stórt, ferðuðust til síns heima á föstudaginn og hfa væntanlega aðeins tekið létta æfingu í gær til að menn gætu dustað af sér ferðarykið.

„Það gæti orðið furðulegur leikur; það er erfitt að sjá fyrir sér hvernig hann verður en spilgæðin verða líklega minni en oft þegar þessi tvö lið mætast,“ sagði Hallgrímur Jónasson þjálfari KA í samtali við Akureyri.net á föstudaginn um viðureignina í dag, þegar álag og þreytu í herbúðum beggja bar á góma.  Fróðlegt verður að sjá hvernig liðin mæta til leiks í dag eftir erfiða leiki og langt og strangt ferðalag.

KA er sem stendur í áttunda sæti Bestu deildarinnar með 21 stig að loknum 17 leikjum en Breiðablik er í þriðja sæti, hefur spilað 18 leiki og er með 34 stig.