Fara í efni
Íþróttir

KA á sigurbraut á nýjan leik – MYNDIR

Steinþór Már Auðunsson markvörður KA varði glæsilega þegar Björn Daníel Sverrisson skallaði að marki eftir tæplega stundarfjórðungs leik. Boltastrákarniar aftan við markið reyndu hvað þeir gátu til þess að aðstoða sinn mann við vörsluna! Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson

KA-menn komust aftur á sigurbraut í Bestu deild karla í knattspyrnu með góðum 4:2 sigri á FH-ingum í leik sem fór fram í sólinni á KA-velli nú í kvöld. Leikurinn var hluti af fimmtu umferð deildarinnar og eftir sigurinn er KA komið með átta stig; komst á sigurbraut á ný eftir tvo deildarleiki í röð án sigurs.

Leikurinn var afar kaflaskiptur. FH-ingar byrjuðu betur og áttu KA-menn í erfiðleikum með að skapa sér færi en leikurinn breyttist þegar Björn Daníel Sverrisson leikmaður FH fór meiddur af velli eftir um hálftíma leik. Eftir það unnu heimamenn sig hægt og bítandi inn í leikinn og uppskáru mark undir lok fyrri hálfleiks. Daníel Hafsteinsson skoraði þá eftir góðan undirbúning frá Hallgrími Mar.

Smellið hér til að sjá leikskýrsluna og stöðuna í deildinni

_ _ _

GLÆSILEG VARSLA STUBBS
Steinþór Már Auðunsson, Stubbur, markmaður KA varði mjög vel á 13. mínútu þegar Björn Daníel Sverrisson skallaði að marki eftir hornspyrnu. Báðir gerðu vel og Stubbur naut dyggrar aðstoðar boltastrákanna aftan við markið ef svo má segja!

_ _ _

TAFIR VEGNA MEIÐSLA
Töluvert var um tafir vegna meiðsla í fyrri hálfleik. Björn Daníel,  sem er á myndunum hér að neðan, fór meiddur af velli á 30. mínútu. Við það riðlaðist leikur FH og KA-menn gengu á lagið. Sindri Kristinn, markmaður gestanna þurfti einnig aðhlynningu í fyrri hálfleik og varð uppbótartíminn níu mínútur.

_ _ _

BJARNI SKAUT Í STÖNG
Bjarni Aðalsteinsson komst nálægt því að gera fyrsta mark leiksins fyrir KA þegar lítið var eftir af fyrri hálfleik. Hann átti þá gott skot úr teignum sem sigraði Sindra í markinu. Boltinn small þó í stönginni og staðan enn markalaus. KA skaut aftur í stöng í seinni hálfleik. Daníel Hafsteinsson var þá nálægt því að bæta við öðru marki sínu í leiknum en skot hans hafnaði í innanverðri stönginni eftir að KA-menn höfðu unnið boltann framarlega á vellinum.

_ _ _

DANÍEL SKORAR
Á áttundu mínútu uppbótartíma fyrri hálfleiks kom fyrsta markið. Daníel Hafsteinsson skoraði með skalla af stuttu færi. Hallgrímur Mar hafði þá komist upp að endalínu og átti góða sendingu á Daníel. KA-menn höfðu verið sterkari aðilinn í aðdraganda marksins.

_ _ _

KA KEMST Í 2:0
Pætur Petersen tvöfaldaði forystu heimamanna í upphafi seinni hálfleiks.. Aftur var það Hallgrímur sem var arkitektinn. Hann keyrði inn í teig FH og átti sendingu út í teiginn þar sem Pætur var mættur í bleiku skónum og renndi boltanum í netið.

_ _ _

FH MINNKAR MUNINN
FH-ingar gáfust þó ekki upp og minnkuðu muninn níu mínútum seinna. Eftir ágætt spil gestanna við teiginn á 62. mín. fékk Hörður Ingi Gunnarsson boltann fyrir utan teig og skoraði með föstu skoti, niðri í nær hornið sem Stubbur í markinu réði ekki við. Hörður horfir á eftir boltanum í netið á myndinni að neðan ásamt Hallgrími Mar og Rodri.

_ _ _

MUNURINN AFTUR TVÖ MÖRK
Sveinn Margeir Hauksson kom KA-mönnum aftur í tveggja marka forystu á 74. mín. þegar hann fylgdi á eftir skoti sem Ásgeir Sigurgeirsson átti. Ásgeir hafði komið inn á sem varamaður stuttu áður. Markmaður FH varði skot Ásgeirs út í teiginn en þar var Sveinn mættur og kom boltanum yfir línuna af harðfylgi. Þetta var síðasta snerting Sveins í leiknum en hann var tekin út af eftir markið.

_ _ _

FH SKORAR ÚR VÍTI
FH-ingar fengu vítaspyrnu á 83. mínútu þegar boltinn fór í hendina á Ívari Erni eftir fyrirgjöf og Sigurður Hjörtur Þrastarson, dómari leiksins dæmdi réttilega víti. Úlfur Ágúst Björnsson steig á punktinn og skoraði úr vítinu en Steinþór Már Auðunsson, Stubbur var nálægt því að verja spyrnuna. Stubbur valdi rétt horn og var í boltanum en spyrnan var nógu föst og í netið fór boltinn. Þarna voru tæpar tíu mínútur til leiksloka og munurinn aftur orðinn eitt mark.

_ _ _

ELFAR MÆTTUR TIL LEIKS!
Elfar Árni Aðalsteinsson sem kom inn á sem varamaður gerði endanlega út um leikinn með frábæru marki þegar komið var í uppbótartíma. Elfar fékk boltann frá Hrannari Mar, náði að snúa á varnarmann FH og skoraði með góðu skoti í fjær hornið. Þetta var  fyrsta mark Elfars Árna í Bestu deildinni á keppnistímabilinu en hann hefur verið mikið frá á undirbúningstímabilinu vegna meiðsla. Elfar hefur nú gert alls 39 mörk fyrir KA í efstu deild.