Fara í efni
Íþróttir

Jón Stefán og Perry Mclachlan með Þór/KA

Perry Mclachlan og Jón Stefán Jónsson, nýir þjálfarar kvennaliðs Þórs/KA. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Perry Mclachlan og Jón Stefán Jónsson hafa verið ráðnir sem þjálfarar kvennaliðs Þórs/KA í knattspyrnu til næstu þriggja ára. Þeir munu starfa saman sem aðalþjálfarar liðsins, auk þess að hafa yfirumsjón með þjálfun og vera í nánu samstarfi við þau sem ráðin verða í störf þjálfara annarra liða sem leika munu undir merkjum Þórs/KA.

Unnið er að ráðningu þjálfara annarra liða sem leika undir merkjum Þórs/KA og má vænta frétta af þeim málum á allra næstu dögum, segir á vef Þórs/KA.

Þar segir: 

„Perry Mclachlan kom fyrst til starfa hér á landi þegar hann var ráðinn aðstoðarþjálfari Greggs Ryder hjá karlaliði Þórs í upphafi árs 2019. Hann hefur jafnframt starfað við þjálfun markvarða hjá meistaraflokki og yngri flokkum Þórs og hjá Þór/KA og mun halda því áfram að einhverju leyti.

Eftir eitt tímabil hjá sem aðstoðarþjálfari Þórs var hann ráðinn aðstoðarþjálfari Andra Hjörvars Albertssonar hjá Þór/KA og hefur sinnt því starfi undanfarin tvö ár, ásamt markvarðaþjálfuninni.

Perry hefur einnig umtalsverða reynslu af þjálfun frá Englandi og Bandaríkjunum, meðal annars hjá kvennaliði Chelsea og akademíu drengja og stúlkna hjá félaginu, markvarðaþjálfun hjá Crystal Palace og sem yfirþjálfari stúlkna- og drengjaliða í Norður-Karólínu í Bandaríkjunum.

Perry hefur lokið UEFA-B gráðu í þjálfun og mun ljúka UEFA-A gráðunni í mars á næsta ári.

Jón Stefán Jónsson hefur starfað við þjálfun frá 2004, fyrst um árabil hjá yngri flokkum Þórs og síðar Val um tíma, þar sem hann starfaði bæði sem þjálfari yngri flokka og aðstoðarþjálfari meistaraflokks kvenna.

Hann tók síðan við starfi aðalþjálfara kvennaliðs Hauka í Hafnarfirði og var með liðið tvö tímabil, 2011-2012.

Eftir viðkomu á Sauðárkróki og aftur við þjálfun yngri flokka hjá Þór var Jón Stefán ráðinn sem framkvæmdastjóri knattspyrnudeildar Tindastóls, þjálfari meistaraflokks kvenna og yfirþjálfari yngri flokka og starfaði þar 2017-2019.

Haustið 2019 hóf hann störf sem íþróttafulltrúi Þórs og hefur gegnt því starfi síðan. Hann var annar aðstoðarþjálfara karlaliðs Þórs á nýafstöðnu tímabili.

Jón Stefán hefur lokið UEFA-A gráðu í þjálfun.

Stjórn Þórs/KA væntir mikils af samstarfi við þessa reyndu þjálfara og bjóðum við þá velkomna til starfa hjá Þór/KA. Markmið félagsins er sem fyrr að vera í fremstu röð liða á Íslandi og berjast um þá titla sem í boði eru – eins og verið hefur í meira en áratug.“