Sunna og Jóhann Már íshokkífólk ársins
Akureyringarnir Jóhann Már Leifsson og Sunna Björgvinsdóttir hafa verið valin íshokkífólk ársins af stjórn Íshokkísambands Íslands.
Jóhann Már hefur leikið með Skautafélagi Akureyrar um árabil og unnið fjölda Íslands- og deildarmeistaratitla. Á þessu ári var hann lykilmaður í meistaraliði SA, gerði fjölda marka og átti margar stoðsendingar.
Jóhann Már hefur átt sæti í landsliðum Íslands til fjölda ára. Hann hefur tekið þátt í öllum landsliðsverkefnum og er – eins og segir í umsögn stjórnar Íshokkísambandsins, „þekktur fyrir vinnusemi, er frábær liðsfélagi og er fyrirmynd margra yngri iðkenda.“
Sunna Björgvinsdóttir lék með Skautafélagi Akureyrar um árabil þar til hún flutti til Svíþjóðar og hefur leikið þar undanfarin misseri með Södertälje SK og IF Troja-Ljungby með framúrskarandi árangri.
Sunna var einn lykilmanna landsliðsins þegar Ísland fékk silfurverðlaun í B-riðli 2. deildar heimsmeistaramótsins, sem fram fór á Akureyri í febrúar á þessu ári. Hún skoraði 5 mörk og átti 4 stoðsendingar á mótinu.
Í umsögn stjórnar Íshokkísambandsins segir: „Sunna er einstaklega jákvæð, góður liðsfélagi og er fyrirmynd margra yngri iðkenda. Sunna hefur sýnt það að hún er liði sínu og landsliði ávallt til sóma hvort sem það er í leik eða utan hans.“