Jakobína gengur til liðs við Breiðablik

Jakobína Hjörvarsdóttir, knattspyrnukona úr Þór/KA, hefur samið til þriggja ára við Breiðablik í Kópavogi. Þetta kom fyrst fram á fotbolti.net í dag og Blikar tilkynntu um samninginn skömmu síðar.
Jakobína, sem er 19 ára, varð stúdent í vor og hóf í haust nám í sjúkraþjálfun við Háskóla Íslands. Hún ákvað af þeim sökum að söðla um í knattspyrnunni.
Þrátt fyrir ungan aldur hefur Jakobína verið lykilmaður í liði Þórs/KA síðustu ár. Hún leikur aðallega sem vinstri bakvörður en einnig oft í stöðu miðvarðar. Jakobína, sem lék fyrst í efstu deild sumarið 2019, aðeins 15 ára, á að baki 57 leiki í deildinni. Leikir hennar með yngri landsliðum Íslands eru alls 27, þar af 14 með U19 liðinu; Jakobína var einn máttarstólpa liðsins þegar það tók þátt í lokakeppni Evrópumótsins í sumar.
Mynd sem Blikar birtu í dag þegar tilkynnt var um samninginn við Jakobínu.