Jajalo frá að minnsta kosti í þrjár vikur
Kristijan Jajalo, markvörður knattspyrnuliðs KA, fór meiddur af velli í lok fyrri hálfleiks gegn Val í gær þegar liðin léku til úrslita um Lengjubikar KSÍ. Hann tognaði í læri og verður þrjár vikur hið minnsta frá. Jajalo hafði aðeins æft í nokkra daga eftir að hann jafnaði sig á samskonar meiðslum.
Steinþór Már Auðunsson, Stubbur, kom í markið í stað Jajalo og lék vel, verði m.a. eina spyrnu í vítaspyrnukeppninni.
KA-menn eru því ekki á flæðiskeri staddir með markmenn; Steinþór Már sannaði hvers hann er megnugur sumarið 2021 þegar Jajalo handarbrotnaði fáeinum dögum fyrir mót, Stubbur stóð í marki KA allt sumarið og var frábær; var af mörgum talinn besti markmaður Íslandsmótsins.
Ekki er ólíklegt að Jajalo missi af fyrstu fjórum leikjum KA í Bestu deildinni miðað við stöðu mála í gær:
- KA – KR
- ÍBV – KA
- KA – Keflavík
- Víkingur - KA
Jakob Snær Árnason fór einnig meiddur af velli í gær og verður frá í einhvern tíma, varla þó meira en tvær vikur. Hann var líka nýbyrjaður að æfa á ný eftir að hafa tognað í læri fyrir nokkrum vikum.
Steinþór Már Auðunsson ver spyrnu Arons Jóhannssonar í vítaspyrnukeppni gærdagsins. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson