Fara í efni
Íþróttir

Jafntefli hjá bæði Þór og KA í Lengjubikarnum

Sigfús Fannar Gunnarsson, til vinstri, og Ásgeir Sigurgeirsson.

Þór og KA gerðu bæði jafntefli í Lengjubikarkeppni karla í knattspyrnu um helgina. Bæði lið hafa þar með lokið tveimur leikjum í keppninni.

Þór og Stjarnan gerðu jafntefli, 1:1, í Boganum í 2. riðli A-deildar á laugardaginn. Gestirnir komust yfir með marki Hilmars Árna Halldórssonar en Sigfús Fannar Gunnarsson jafnaði fyrir Þórsara með fyrsta marki sínu fyrir meistaraflokk félagsins í alvöru leik. Sigfús Fannar, sem er 19 ára, er að stíga fyrstu skrefin í meistaraflokki og var valinn maður leiksins af Þórsurum.

Smellið hér til að sjá leikskýrsluna. Þór hafði áður tapað 3:1 fyrir ÍA á Akranesi.

  • Næsti leikur Þórs í Lengjubikarkeppninni er gegn Knattspyrnufélagi Vesturbæjar (KV) næsta laugardag, 26. febrúar, klukkan 17.00 í Boganum.

KA og FH gerðu einnig jafntefli, 1:1, í Boganum síðar á laugardaginn. þau eru í 4. riðli A-deildar Lengjubikarkeppninnar. Ásgeir Sigurgeirsson kom KA-mönnum yfir en Kristinn Freyr Sigurðsson jafnaði fyrir FH í blálokin. Leikskýrslan hefur ekki verið fyllt út á vef KSÍ. Áður hafði KA unnið Grindavík 2:0 á Akranesi.

  • Næsti leikur KA í Lengjubikarkeppninni er gegn Fram í Boganum næsta sunnudag, 27. febrúar, kl. 16.00.