Fara í efni
Íþróttir

Jafnt í grannaslag og góð stemning – MYNDIR

Stemningin var góð í Höllinni á laugardagskvöldið enda á sjötta hundrað áhorfendur sem mættu. Ljósmyndir: Sara Skaptadóttir

Rúmlega 500 manns skemmtu sér vel í Íþróttahöllinni á Akureyri á laugardagskvöldið þegar Þór og ungmennalið KA gerðu jafntefli, 32:32, í Grill66 deildinni í handbolta, næst efstu deild Íslandsmótsins.

Ekki var gefinn þumlungur eftir frekar en búist var við; mikið fjör var innan vallar og einnig utan því stuðningsmenn liðanna voru vel með á nótunum.

KA hafði eins marks forystu í hálfleik og jafnræði var með liðunum í seinni hálfleik, þau skiptust á að hafa eins til tveggja marka forystu. Þórsarar voru í kjörstöðu eftir að línumaðurinn öflugi, Kostadin Petrov, kom þeim í 32:29 þegar aðeins rúmar þrjár mínútur voru eftir en KA-strákarnir neituðu að játa sig sigraða og gerðu þrjú síðustu mörkin, fyrst skoraði Haraldur Bolli Heimisson og síðan Jónsteinn Helgi Þórsson í tvígang.

Tveir leikmenn Þórs fengu rautt spjald í leiknum og voru því útilokaðir frá frekari þátttöku. Það kom niður á liðinu, eins og nærri má geta enda um tvo lykilmenn að ræða; Arnór Þorri Þorsteinsson fékk beint rautt spald á næst síðustu mínútu fyrri hálfleiks fyrir að skjóta í höfuð markvarðar KA úr vítakasti og Aron Hólm Kristjánsson fékk rautt spjald um miðjan síðari hálfleik vegna þriðju brottvísunar. Sá úrskurður var í harðari kantinum; Aron reiddist reyndar mjög fyrir að fá ekki vítakast eftir að brotið var á honum og blóðugt var að fá þriðju tveggja mínútna brottvísunina fyrir það, og þar með útilokun.

Vert er að geta þess að tvo lykilmenn vantaði í lið KA. Dagur Árni Heimisson var í leikbanni og Skarpéðinn Ívar Einarsson tæpur vegna meiðsla og meistaraflokkur KA átti leik daginn eftir.

Mörk Þórs: Kostadin Petrov 8, Josip Vekic 7, Arnór Þorri Þorsteinsson 6, Jón Ólafur Þorsteinsson 5, Jonn Rói Tórfinnsson 3, Aðalsteinn Ernir Bergþórsson 2, Andri Snær Jóhannsson 1. Varin skot: Arnar Þór Fylkisson 20.

Mörk KA U: Kristján Gunnþórsson 9, Jónsteinn Helgi Þórsson 8, Haraldur Bolli Heimisson 7, Arnór Ísak Haddsson 3, Ísak Óli Eggertsson 3, Logi Gautason 1, Jens Bragi Bergþórsson 1. Varin skot: Bruno Bernat 11.

Ungmennalið KA hefur þar með sex stig eftir fimm leiki og er í 3. sæti. Þór er með fimm stig eins og Víkingur og ungmennalið Selfoss en HK og Valur eru efst, bæði með níu stig.

Sara Skaptadóttir var í Höllinni á laugardagskvöldið með myndavélina.

Smellið hér til að sjá alla tölfræðina.