Íþróttastarf hefjist við fyrsta tækifæri
Margir í íþróttahreyfingunni hafa kallað hátt eftir því að æfingar verði heimilaðar á ný, og helst keppni, og þeim virðist fljótlega verða að ósk sinni. Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra sagði í gær að það væri forgangsmál hjá stjórnvöldum að koma íþrótta- og æskulýðstarfi af stað enda um mikilvægt lýðheilsumál að ræða.
„Það er brýn þörf á að virkja iðkendur og tryggja samfellu í æfingum íþróttafólks,“ skrifaði ráðherra á Facebook síðu sína.
„Nú er markmiðið að íþróttastarf geti hafist samhliða sóttvarnarráðstöfunum. Fram hefur komið að mikil þörf er á að fyrirsjáanleiki aukist um hvernig skipulagi verði háttað. Mikilvægt er að samræmi sé í takmörkunum í skólastarfi og íþrótta- og æskulýðsstarfi ásamt því að tryggja að skipulag íþróttastarfs sé sambærilegt í alþjóðlegu samhengi, eins og frekast er unnt.
Við í mennta- og menningarmálaráðuneytinu höfum í samstarfi við heilbrigðisráðuneytið og sóttvarnalækni unnið að því að undirbúa að umrædd starfsemi geti hafist við fyrsta tækifæri,“ skrifaði Lilja Alfreðsdóttir.