Íþróttir
Íslandsmótinu lýkur með Motul torfærunni í dag
17.08.2024 kl. 05:30
Úrslit ráðast á Íslandsmótinu í torfæru í dag, laugardag, þegar Motul torfæran fer fram á svæði Bílaklúbbs Akureyrar. Þetta er fimmta og síðasta umferð Íslandsmótaraðarinnar og hefst keppni klukkan 11.00.
Reiknað er með harðri keppni á Akureyri í dag. Norðanmennirnir Þór Þormar og Finnur Aðalbjörnsson hafa gert það gott undanfarið, Þór á möguleika á meistaratitlinum í flokki sérútbúinna bíla og Finnur er jafnvel talinn sigurstranglegur í dag.
Keppt er í tveimur flokkum; flokki sérútbúinna bíla og sérútbúinna götubíla.
Akureyrska fyrirtækið Kraftar og afl ehf., Motul á Íslandi, er aðal styrktaraðili torfærunnar og Íslandsmeistarinn í flokki sérútbúinna bíla fær óvenjuleg en glæsileg verðlaun: ferð til Bandaríkjanna þar sem fyrirtækið VP Fuel verður heimsótt, en það framleiðir bensínið sem notað er á torfærubílana. Motul á Íslandi er umboðsaðili hérlendis fyrir VP Fuel.
Að auki fær sá sem endar í 1. sæti óvænt og rausnarleg verðlaun eins og það var orðað við Akureyri.net í gær. Hver þau verðlaun eru, fæst hins vegar ekki uppgefið fyrr en í dag.
Vert er að geta þess að keppni í torfæru er ekki lokið þetta árið þótt Íslandsmótinu ljúki í dag. Bikarkeppnin er enn í gangi og á þeim vettvangi eiga ökuþórarnir eftir að reyna með sér í tvígang fyrir sunnan.