Ísland hársbreidd frá undanúrslitunum
Stelpurnar í landsliði 19 ára og yngri gerðu jafntefli við Pólverja, 24:24, í síðasta leik riðlakeppni í B-deildar Evrópumótsins í handbolta í Skopje í Makedóníu í dag.
Ísland þurfti að sigra til að komast í undanúrslit og Rakel Sara Elvarsdóttir, hornamaðurinn í frábæri í Íslandsmeistaraliði KA/Þórs, fékk gullið tækifæri að gera sigurmarkið á lokasekúndunum en markvörðurinn varði frá henni úr dauðafæri í horninu.
Hvíta-Rússland sigraði í riðlinum, vann alla þrjá leikina, Ísland og Pólland fengu bæði þrjú stig, en Pólland telst í öðru sæti vegna betri markatölu. Tvö efstu liðin fara í undanúrslit.
Mörk Íslands í dag: Jóhanna Margrét Sigurðardóttir 8, Elín Rósa Magnúsdóttir 4, Bríet Ómarsdóttir 3, Rakel Sara Elvarsdóttir 3, Sara Katrín Gunnarsdóttir 3, Ída Margrét Stefánsdóttir 1, Katrín Helga Sigurbergsdóttir 1, Júlía Sóley Björnsdóttir 1. Ingibjörg Gróa Guðmundsdóttir varði 9 skot og Signý Pála Pálsdóttir varði 1.
Ísland leikur um 5. - 8. sæti á mótinu, mætir liði Kosovo á laugardag og lokaleikurinn verður á sunnudag.
Vert er að vekja athygli á því að Færeyringar sigruðu í hinum riðlinum og fara í undanúrslitin ásamt Hollendingum.
Stelpurnar í landsliðinu sem taka þátt í B-deild Evrópumóts 19 ára og yngri í Skopje. Ljósmynd. EHF.