Íshokkístrákarnir á mikilli siglingu
Akureyringar voru áberandi sem endranær og gerðu sjö af átta mörkum U18 landsliðsins í íshokkí þegar það vann Tyrki 8:4 í Skautahöllinni á Akureyri í kvöld.
Uni Steinn Sigurðarson Blöndal og Arnar Helgi Kristjánsson skoruðu báðir þrisvar og Ormur Jónsson einu sinni í hörkuskemmtilegum leik. Mikill hraði og barátta var strax frá byrjun en eftir því sem leið á náðu íslensku strákarnir betri tökum á leiknum og unnu mjög sanngjarnan sigur.
Ísland hefur þar með unnið þrjá fyrstu leikina í A-riðli 3. deildar heimsmeistaramótsins og er eina liðið með fullt hús stiga.
Mexíkó og Ísrael hafa unnið tvo leiki og allt stefnir í að viðureign Íslands og Ísraels á laugardaginn verði úrslitaleikur riðilsins. Ísland mætir Lúxemborg annað kvöld
Mörkin í kvöld:
- 1:0 Uni Blöndal (8:35)
- 1:1 Osman Meydanci (11:35)
- 2:1 Uni Blöndal (16:06)
- 3:1 Kristján Jóhannesson (19:18)
- 3:2 Enes Demir (27:40)
- 4:2 Ormur Jónsson (28:28)
- 5:2 Uni Blöndal (28:50)
- 5:3 Enes Demir (36:56)
- 6:3 Arnar Helgi Kristjánsson (50.57)
- 7:3 Arnar Helgi Kristjánsson (50.57)
- 8:3 Arnar Helgi Kristjánsson (50.01)
- 8:4 Enes Demir (51:30)
Smellið hér til að sjá leikskýrsluna.
Arnar Karvelsson í góðri gæslu tveggja Tyrkja í kvöld.
Handagangur í öskjunni við mark Tyrkjanna!
Arnar Helgi Kristjánsson, lengst til hægri, sendi pökkinn á Una Blöndal ...
... sem skorar fyrsta mark leiksins af öryggi.
Íslensku strákarnir fagna fyrsta marki leiksins.
Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson