Íþróttir
Íshokkí-Akureyringar standa sig vel í Svíþjóð
31.01.2022 kl. 22:30
Fjórir Akureyringar eftir leik Södertälje SK og Haninge Anchors HC í síðustu viku. Frá vinstri: Saga Sigurðardóttir Blöndal, Sunna Björgvinsdóttir, Silvía Rán Björgvinsdóttir og Teresa Snorradóttir.
Átta Akureyringar leika íshokkí í Svíþjóð í vetur og hafa staðið sig vel. Frá þessu er sagt á vef Skautafélags Akureyrar.
Fjórir SA-ingar spila í 1. deild kvenna, þeirri næst efstu:
- Silvía Rán Björgvinsdóttir sem í haust var fengin til liðs Gautaborgar í efstu deild, færði sig nýverið um set og leikur nú með gamla liðinu sínu, Södertälje SK, í næst efstu deild. Silvía var lánuð þangað.
- Í Södertälje hittir Silvía Rán fyrir Sögu Blöndal Sigurðardóttur, fyrrverandi samherja sinn hjá SA. Södertälje hefur unnið flesta leiki vetrarins og leggur nú allt kapp á að komast upp í efstu deild. Liðið hefur þegar tryggt sér sæti í umspili um sæti þar.
- Silvía hefur tekið þátt í fjórum leikjum Södertalje og gert 5 stig en Saga er „fyrsti varnarmaður á blað hjá liðinu og spilar stórt hlutverk á báðum endum vallarins,“ segir á vef SA.
- Sunna Björgvinsdóttir og Teresa Snorradóttir leika báðar með Haninge Anchors HC, sem er á Stokkhólmssvæðinu, eins og Södertälje og er einnig í toppbaráttu næst efstu deildarinnar.
- Sunna er á meðal stigahæstu leikmanna Haninge, er komin með 17 stig í 21 leik en báðar hafa þær Teresa verið á miklu flugi með liðinu upp á síðkastið, eins og það er orðað á vef SA. Liðið tryggði sér sæti í umspilinu um helgina.
- Íslendingaliðin mættust síðasta fimmtudag og þar höfðu Sunna og Teresa og stöllur þeirra í Haninge betur eftir vítakeppni. Myndin að ofan er tekin eftir þann leik.
Fjórir akureyrskir strákar leika svo með tveimur unglingaliðum í Svíþjóð, tveir með hvoru:
- Uni Steinn Sigurðsson, bróðir Sögu Blöndal, leikur í vetur með liði 18 ára og yngri hjá Göta/Traneberg í Stokkhólmi. Hann hefur að sögn staðið sig frábærlega og raðar inn mörkum; Uni hefur sett þrennu í síðustu tveimur leikjum, hefur alls gert 23 mörk í 21 leik og er markahæsti leikmaður liðsins. Markvörðurinn Helgi Ívarsson fór til reynslu hjá liðinu fyrir jól, er nú kominn með samning og þreytti frumraun sína um helgina. Leikirnir voru tveir og Helgi hélt hreinu í þeim seinni.
- Norðar í Svíþjóð spila svo þeir Alex Máni Sveinsson og Arnar Kristjánsson með liði 18 ára og yngri hjá Sollefteå HK. Liðinu hefur gengið vel og er í efsta sæti sæti riðilsins, að því er segir á vef SA. Alex Máni er á meðal stigahæstu leikmanna liðsins og Arnar hefur einnig staðið sig vel.
Uni Steinn Sigurðsson, til vinstri, og Helgi Ívarsson, samherjar hjá Göta/Traneberg.
Alex Máni Sveinsson og Arnar Kristjánsson, sem leika saman með Sollefteå HK.