Fara í efni
Íþróttir

Ingvar og Brynjar meistarar – MYNDIR

Finnur Aðalbjörnsson á fleygiferð í Motul-torfærunni á svæði Bílaklúbbs Akureyrar á laugardaginn. Mynd: Motul

Ingvar Jóhannesson frá Vík í Mýrdal varð Íslandsmeistari í torfæru í flokki sérútbúinna bíla og Brynjar Jökull Elíasson, úr Akstursíþróttafélaginu START, varð Íslandsmeistari í flokki sérútbúinna götubíla. Lokaumferð Íslandsmótsins – Motul-torfæran – fór fram á torfærusvæði Bílaklúbbs Akureyrar á laugardaginn. 

Heimamaðurinn Finnur Aðalbjörnsson tók forystu strax í fyrstu grein Motul torfærunnar og hélt henni allt til loka. Sigraði því með glæsibrag í þessari fimmtu og síðustu keppni ársins, Skúli Kristjánsson varð annar og Ingvar Jóhannesson þriðji.

Finnur Aðalbjörnsson glaður í bragði eftir sigurinn á laugardaginn. Mynd: Motul

Ingvar fagnaði því Íslandsmeistaratitlinum. Akureyringurinn Þór Þormar Pálsson eygði von um meistaratitilinn en til þess þurfti hann að sigra á laugardaginn og treysta á Ingvar yrði ekki á meðal tíu efstu. Þór varð því að gera sér annað sæti að góðu í ár. Tilþrifaverðlaun á laugardaginn fékk Akureyringurinn Kristján Skjóldal.

Hvorki fleiri né færri en 30 ökumenn tóku þátt í keppninni sem var skemmtileg og gekk afar vel. Efstu menn í hvorum flokki í keppni um Íslandsmeistaratitilinn urðu þessir:
 

Sérútbúnir bílar

Ingvar Jóhannesson, TK
Þór Þormar Pálsson, BA
Bjarnþór Elíasson, START
Skúli Kristjánsson, AÍNH
Guðmundur Elíasson, TK

Hér má sjá nýkrýndan Íslandsmeistara, Ingvar Jóhannesson, á þremur myndum í keppni helgarinnar. Myndirnar, sem birtust á Facebook síðu Ingvars, tók Heiða Björg.

Sérútbúnir götubílar

Brynjar Jökull Elíasson, START
Finnur Bárðarson, AÍNH
Jónas Freyr Sigurbjörnsson, BA
Haraldur Már Guðmundsson, BA
Benedikt Helgi Sigfússon, AÍNH 

  • Íþróttaljósmyndarinn magnaði, Þórir Ó. Tryggvason, fylgdist með torfærunni og býður hér að neðan til myndaveislu; myndir segja meira en þúsund orð í þessu tilfelli eins og svo oft áður.