Tap hjá SA Víkingum – oddaleikur á Akureyri
SA Víkingar náðu ekki að endurheimta Íslandsmeistaratitilinn í íshokkí í kvöld eftir tap fyrir SR í spennandi leik í Reykjavík. Einvígið er jafnt og úrslitin ráðast í oddaleik í Skautahöllinni á Akureyri á skírdag.
Uni Steinn Blöndal Sigurðarson kom SA Víkingum yfir, en þeir voru þá tveimur fleiri vegna refsinga á leikmenn SR. Það liðu þó ekki nema 14 sekúndur frá því að leikur hófst að nýju þar til SR-ingar höfðu jafnað, einum færri. Heimamenn tóku svo forystuna með marki þegar rúm mínúta var eftir af fyrsta leikhlutanum. SR-ingar juku forystuna snemma í öðrum leikhluta eftir varnarmistök Akureyringa. Ekki löngu seinna kom fjórða mark SR, en SA Víkingar náðu loks að koma inn öðru marki um miðjan annan leikhluta. Þar var Jóhann Már Leifsson að verki og hann hleypti aftur spennu í leikinn þegar skoraði aftur í þriðja leikhlutanum og minnkaði muninn í eitt mark.
Lokamínúturnar urðu því spennandi þar sem SA Víkingar lögðu allt í að jafna leikinn. Róbert Máni Hafberg átti til dæmis stangarskot þegar fjórar mínútur voru eftir. Þeir tóku svo markvörð sinn út af á lokamínútunni og freistuðu þess að jafna, en vildi ekki betur til en svo þegar stutt var eftir að þeir töpuðu pökknum og SR-ingar skoruðu fimmta mark sitt í autt markið.
SR - SA Víkingar 5-3 (2-1, 2-1, 1-1)
- 0-1 Uni Steinn Blöndal Sigurðarson (13:20). Stoðsending: Gunnar Aðalgeir Arason.
- 1-1 Axel Orongan (13:34).
- 2-1 Felix Sareklev Dahlstedt (18:50). Stoðsending: Sölvi Atlason, Axel Orongan.
- - - - 3-1 Gunnlaugur Þorsteinsson (24:10).
- 4-1 Ólafur Björnsson (26:49).
- 4-2 Jóhann Már Leifsson (31:43). Stoðsending: Ingvar Jónsson.
- - - - 4-3 Jóhann Már Leifsson (44:24). Stoðsending: Gunnar Aðalgeir Arason.
- 5-3 Axel Orongan (59:51).
Heimamenn í SR dvöldu í 20 mínútur samtals í refsiboxinu, en Akureyringar í 14 mínútur.
Oddaleikur þar sem úrslitin ráðast um Íslandsmeistaratitilinn fer fram í Skautahöllinni á Akureyri á skírdag, fimmtudaginn 28. mars, og hefst kl. 16:45.