Fara í efni
Íþróttir

Í fótspor föður og tveggja frænda!

Tvíburarnir Nökkvi Þeyr og Þorri Mar ásamt foreldrum sínum, Þóri Áskelssyni og Hugrúnu Felixdóttur. Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson

Nökkvi Þeyr Þórisson, 22 ára Dalvíkingur, hefur rækilega slegið í gegn með knattspyrnuliði KA í sumar. Nökkvi Þeyr, sem gerði fyrsta markið fyrir KA í efstu deild í maí 2019, hefur í sumar skorað 17 mörk í Bestu deildinni, efstu deild Íslandsmótsins. Metið er 19 mörk og hann hefur því þrjá leiki til þess að jafna metið eða slá það!

  • KA-menn verða á ferðinni í Bestu deildinni í dag. Þeir sækja Framara heim á nýlegan heimavöll í Úlfarsárdal klukkan 17.00 og þar verður væntanlega við ramman reip að draga.

Tvíburabróðir Nökkva Þeys, Þorri Mar, er einnig í herbúðum KA eins og margir vita og þeir eiga ekki langt að sækja íþróttahæfileikana, ef svo má segja.

Faðir bræðranna, Þórir Guðmundur Áskelsson, tók á sínum tíma þátt í 197 leikjum í meistaraflokki, langflestum með Þór, og gerði 13 mörk – þar af voru 77 leikir (og tvö mörk) í efstu deild. Fyrra markið í efstu deild gerði Þórir 21. ágúst 1994, þá 23 ára; sigurmarkið þegar Þór vann Stjörnuna 3:2 í Garðabæ. Skoraði með þrumuskoti af 20 metra færi á 78. mínútu.

Þess má svo geta til gamans að föðurbróðir Nökkva Þeys og Þorra Mar, Halldór Ómar Áskelsson, einn þekktasti knattspyrnumaður Akureyrar, gerði á sínum tíma 34 mörk í efstu deild fyrir Þór og tvö fyrir Val. Fyrsta markið í efstu deild gerði Halldór 9. júlí 1983 í 2:0 sigri Þórsara á Skagamönnum á Akranesi, 18 ára að aldri. Hann komst einn inn fyrir vörnina og skoraði með föstu skoti frá vítateig framhjá Bjarna Sigurðssyni, landsliðsmarkverði.

Móðir Nökkva Þeys, Hugrún Felixdóttir, lék fótbolta á sínum tíma en aldrei í efstu deild. Bróðir hennar, Heiðmar Felixson, þekktastur sem atvinnu- og landsliðsmaður í handbolta, lék hins vegar í efstu deild í fótbolta; tók þátt í níu leikjum með Þór sumarið 1993, aðeins 16 ára, þar af var hann fjórum sinnum í byrjunarliðinu. Hann náði ekki að skora í efstu deild en gerði þónokkur mörk þau sumur sem hann lék með Þór eða Dalvík í neðri deildum, í sumarfríum, en Heiðmar lék þá sem atvinnumaður í handbolta í Þýskalandi og á Spáni! Fyrsta mark Heiðmars í deildarkeppni gerði hann 17. júlí 1997 þegar Dalvík sigraði Reyni úr Sandgerði 3:0 fyrir norðan.

Nökkvi Þeyr og tvíburabróðir hans, Þorri Mar, léku bæði með Dalvík og Þór í yngri aldursflokkum, áður en þeir sömdu við Hannover 96 í Þýskalandi. Þeir snéru aftur til Dalvíkur sumarið 2018 og sömdu við KA fyrir keppnistímabilið 2019.

Halldór Áskelsson, föðurbróðir Nökkva og Þorra, liggjandi á vellinum, eftir að hann gerði fimmta mark sitt í deildarleik gegn FH á Akureyrarvelli í síðustu umferð Íslandsmótsins 1985. Þarna fagna honum Siguróli Kristjánsson, Arni Stefansson og Sigurður Bjarnar Pálsson. Innfellda myndin var tekin þegar Halldór var kjörinn knattspyrnumaður ársins á Akureyri 1987.

Heiðmar Felixson, í sumarfríinu 2006, þá atvinnumaður í handbolta í Þýskalandi og sumarstarfsmaður lögreglunnar á Akureyri - daginn eftir að hann skoraði tvö mörk í leik með Þór í næst efstu deild Íslandsmótsins.

Þórir Guðmundur Áskelsson, faðir Nökkva og Þorra. Myndin er tekin fyrir minningarleik um Guðmund Sigurbjörnsson á Þórsvellinum sumarið 2013.