Hvað er í gangi, strákar? Þórsarar niðurlægðir
Þórsarar steinlágu fyrir Leiknismönnum í gær, 5:1, á útivelli í Lengjudeildinni, næst efstu deild Íslandsmótsins í knattspyrnu. Þeir léku bærilega framan af en þegar á leið virtist vonleysi grípa um sig og sunnanmenn völtuðu hreinlega yfir Þórsliðið.
Oft er stuttu milli hláturs og gráts í íþróttum og gott dæmi um það er að fáeinum andartökum áður en Leiknir gerði fyrsta markið voru Þórsarar í stórsókn og hinn 15 ára Einar Freyr Halldórsson átti gott skot sem hafnaði í þverslá. Spyrja má: Hvað ef? Svar fæst hins vegar aldrei við þeirri spurningu.
Leiknir komst í 2:0 með tveimur mörkum með tveggja millibili þegar hálftími var liðinn en Sigfús Fannar Gunnarsson minnkaði muninn fljótlega. Breiðhyltingar bættu svo þremur mörkum við í seinni hálfleik.
Staða Þórs skánar eðlilega ekki við tapið í gær; liðið er nú í þriðja neðsta sæti með 19 stig að loknum 19 leikjum. Aðeins Grótta og Dalvík/Reynir eru neðar, bæði með 13 stig, og Þór á eftir að mæta báðum. Eins gott að menn setjist niður, reyni að átta sig á því hvers vegna staðan er eins og raun ber vitni, og gyrði sig í brók fyrir lokaátökin.
Sigurður Heiðar Höskuldsson, þjálfari liðsins, sagði einmitt við fótbolta.net í gær að hann þyrfti að setjast niður með liðinu og líta í spegil. Óhætt er að taka undir það; leikur Þórs lofaði mjög góðu í vor en þegar út í alvöruna kom fór margt á verri veg en gera mátti ráð fyrir, því miður, og árangurinn í sumar er mjög langt undir væntingum.
Þórs fær ÍR í heimsókn um næstu helgi og á lokasprettinum tekur Þór á móti Dalvík/Reyni og mætir svo Gróttu á útivelli, í síðustu umferðinni.
Birkir Heimisson var í banni í gær vegna brottreksturs í síðasta leik og verður fjarverandi af sömu sökum gegn ÍR. Þá meiddist Aron Einar Gunnarsson í gær og varð að fara af velli eftir aðeins 20 mínútur. Vonandi verður hann klár í slaginn fljótlega, ekki veitir af.
Einar Freyr Halldórsson, sem áður var nefndur, hefur komið lítillega við sögu í sumar en var í fyrsta skipti í byrjunarliði Þórs í gær. Þessi efnilegi unglingalandsliðsmaður verður ekki 16 ára fyrr en í lok næsta mánaðar og eitt af því ánægjulega hjá Þór er hve margir ungir leikmenn fá tækifæri til að spreyta sig. Sumir þeirra sem leika lykilhlutverk eru aðeins um tvítugt, eru góðir í fótbolta, en stöðugleika vantar og líklega meiri grimmd, kjark og þor. Það er verðugt verkefni að bæta þá þætti.