Hlupu sér til gamans í Stokkhólmsmaraþoninu
Það er kannski ekki í frásögur færandi að hlaupa maraþon þó það sé afrek út af fyrir sig. Akureyri.net hafði spurnir af þremur jafnöldrum úr 1985 árganginum, fyrrum liðsfélögum í fótboltanum og fleiri íþróttum sem héldu til Svíþjóðar fyrir helgina og hlupu saman í Stokkhólmsmaraþoninu. Myndin sem fylgir fréttinni er af þeim félögum á fótboltamóti eldri iðkenda þar sem menn hlupu væntanlega ekki rúma 42 kílómetra, en þó er aldrei að vita.
Þeir Jónas Freyr Guðbrandsson, Logi Ásbjörnsson og Ólafur Sigurgeirsson tóku saman þátt í maraþonhlaupi í Stokkhólmi síðastliðinn laugardag. Ekki fylgir sögunni hve alvarlega þeir taka hlaupin almennt eða hve mikið þeir æfðu og undirbjuggu sig fyrir hlaupið í Stokkhólmi. Ólafur Sigurgeirsson var fremstur þremenningana, kom í mark nær þremur stundarfjórðungum á undan þeim, hljóp maraþonið á fjórum klukkustundum og 18 mínútum, en þeir Logi og Jónas Freyr komu saman í mark eftir rétt rúmlega fimm tíma hlaup, annar á fimm tímum og 22 sekúndum, hinn á 23 sekúndum. Líklega eru engin met í kortunum hjá þeim félögum, en skiptir ekki mestu að vera með og hafa gaman?
Hér má sjá tíma og millitíma hjá hverjum og einum með því að smella á nafnið: