HK fagnaði fyrsta sigri vetrarins – gegn KA/Þór
Lið KA/Þórs varð að játa sig sigrað þegar það sótti HK heim í Kópavog í dag í Olís deild kvenna í handbolta, efstu deild Íslandsmótsins. Eftir jafnan fyrri hálfleik unnu heimamenn býsna öruggan sigur, 28:22.
KA/Þór hafði eins marks forystu þegar fyrri hálfleik lauk, 14:13; Rut Jónsdóttir gerði síðasta markið úr víti eftir að leiktíminn var úti.
Jafnræði var með liðunum fyrstu 10 mínútur seinni hálfleiks en þá héldu Stelpurnar okkar ekki lengur í við heimaliðið sem sigldi smám saman fram úr.
Þetta var fyrsti sigur HK í deildinni í vetur og liðið er enn í fallsæti, hefur tvö stig eins og Haukar og Selfoss. KA/Þór er í fimmta sæti með fimm stig að loknum fimm leikjum.
Mörk KA/Þórs: Rut Jónsdóttir 5, Júlía Björnsdóttir og Unnur Ómarsdóttir 4 hvor, Hildur Lilja Jónsdóttir 3, Kristín Aðalheiður Jóhannsdóttir og Svala Björk Svavarsdóttir 2 hvor, Lydía Gunnþórsdóttir og Nathalia Soares Baliana 1 hvor. Matea Lonac verði 9 skot.
Smellið hér til að sjá alla tölfræði