Hendrickx kveður KA og heldur heim til Belgíu
Belgíski bakvörðurinn Jonathan Hendrickx, sem leikið hefur með KA í sumar, er á heimleið. Hann klæddist KA-búningnum í síðasta skipti í leiknum gegn Keflvíkingum í kvöld.
KA-menn og Belginn skilja í góðu; það er bæði vegna fjölskylduaðstæðna og atvinnu sem hann snýr heim á ný. Hendrickx stundar viðskipti í Belgíu í félagi við bróður sinn og þau munu orðin það umfangsmikil að honum þyki nauðsynlegt að sinna því starfi í návígi. Þess vegna samdi hann við KA um starfslok. Til stóð að Hendrickx færi fyrr utan en vegna meiðsla Hrannars Björns Steingrímssonar féllst hann á að leik með KA þar til arftaki fyndist, eftir því sem Akureyri.net kemst næst. Í gær var tilkynnt að KA hefði samið við danska bakvörðinn Mark Gundelach og þar með er ekkert því til fyrirstöðu að Hendrickx hverfi á braut.
Leikurinn í kvöld var sá níundi hjá Jonathan Hendrickx með KA á Íslandsmótinu og hann tók að auki þátt í einum bikarleik. Hann gerði eitt mark fyrir KA, í 1:1 jafnteflinu við FH í Hafnarfirði í Pepsi Max deildinni.