Haukur Heiðar leggur skóna á hilluna
Haukur Heiðar Hauksson knattspyrnumaður hefur ákveðið að leggja skóna á hilluna. KA-maðurinn, sem er þrítugur, hefur glímt við þrálát meiðsli í nokkur ár og tilkynnti á Instagram reikningi sínum í gær að hann hann hefði ákveðið að láta gott heita.
Hann skrifaði: Eftir að hafa barið hausnum við vegg í 5 ár hef ég ákveðið að segja þetta gott. 4 titlar og 1 EM. Takk fyrir mig!
Haukur Heiðar, sem er KA-maður í húð og hár, hóf að leika með meistaraflokki félagsins árið 2008, og lék síðan með KR 2012 til 2014, þar sem hann varð einu sinni Íslandsmeistari og tvisvar bikarmeistari. Haukur samdi því næst við sænska stórliðið AIK frá Stokkhólmi, lék þar í þrjú ár, 2015 til 2018, og varð sænskur meistari síðasta árið. Haukur kom heim til KA á ný fyrir leiktíðina 2019 og hefur síðan tekið þátt í 24 leikjum í deild og bikar.
Haukur á sjö A-landsleiki að baki fyrir Ísland og var meðal annar í landsliðshópnum á Evrópumótinu í Frakklandi 2016.
Instagram færsla Hauks í gær þar sem hann birti mynd af sér í búningi AIK, þar sem hann varð sænskur meistari árið 2018. Á minni myndinni fagnar Haukur innilega eftir frækinn sigur Íslands á Englandi í Nice, á Evrópumótinu 2016. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson