Fara í efni
Íþróttir

Haraldur valinn fyrsti íþróttaeldhugi ársins

Íþróttaeldhugar! Frá vinstri: Friðrik Þór Óskarsson, Þóra Guðrún Gunnarsdóttir og Haraldur Ingólfsson í hófi Íþróttasambands Íslands og Samtaka íþróttafréttamanna í Hörpu í kvöld.

Haraldur Ingólfsson er fyrsti Íþróttaeldhugi ársins úr röðum sjálfboðaliða í íþróttahreyfingunni hér á landi! Íþrótta- og ólympíusamband Íslands (ÍSÍ) stendur fyrir þessum verðlaunum í fyrsta skipti í ár og var niðurstaðan tilkynnt í kvöld.

Haraldur hefur undanfarin ár unnið gríðarlegt starf fyrir íþróttafélagið Þór og kvennalið Þórs/KA í knattspyrnu. Hann tók við verðlaununum í hófi ÍSÍ og Samtaka íþróttafréttamanna í Hörpu, þar sem ýmsar viðurkenningar eru veittar og hefðbundinn hápunktur var þegar kjöri  Samtaka íþróttafréttamanna á íþróttamanni ársins var lýst; Ómar Ingi Magnússon, landsliðsmaðurinn frábæri í handbolta, hlaut nafnbótina að þessu sinni, annað árið í röð.

Alls voru 175 manns tilnefndir af íþróttahreyfingunni og almenningi til verðlaunanna Íþróttaeldhugi ársins en valnefnd valdi þrjú sem komu til greina og voru þau öll í Hörpu í kvöld. Það eru, auk Haraldar, þau Friðrik Þór Óskarsson sem hefur starfað fyrir ÍR og Frjálsíþróttasambandið og Þóra Guðrún Gunnarsdóttir, sem starfað hefur fyrir Björninn, SR og Skautasambandið. 

Nánar síðar