Handbolti: Afleitur dagur í KA-heimilinu
Selfyssingar brostu breitt í KA-heimilinu í dag en Akureyringar voru hins vegar afar niðurlútir enda unnu gestirnir tvo handbolaleiki í efstu deild Íslandsmótsins; karlalið Selfoss vann KA 35:29 og kvennaliðið sigraði KA/Þór 26:21.
Líkurnar á því að KA komist í úrslitakeppni Íslandsmóts karla minnkuðu enn með tapinu í dag. Möguleikinn er vissulega enn fyrir hendi, en þegar KA á fimm leiki eftir er liðið fimm stigum á eftir Haukum, sem er í áttunda sæti, því síðasta sem veitir rétt til þátttöku í úrslitakeppninni. Haukar eiga meira að segja einn leik til góða.
Öllu alvarlegra er þó að KA-menn eru að sogast niður í alvöru fallhættu; hafa nú 11 stig eftir 17 leiki en ÍR-ingar, sem eru næðst neðstir, eru með átta stig en hafa lokið 16 leikjum. Tvö neðstu liðin falla.
Fyrri hálfleikurinn var í jafnvægi, Selfyssingar tveimur mörkum yfir eftir fyrri 30 mínúturnar en höfðu mikla yfirburði í seinni hálfleik og náðu mest níu marka forystu.
Mörk KA: Gauti Gunnarsson 6, Jens Bragi Bergþórsson 6, Dagur Gautason 5, Einar Rafn Eiðsson 3 (1 víti), Ólafur Gústafsson 2, Allan Nordberg 2, Skarphéðinn Ívar Einarsson 2, Ragnar Snær Njálsson 1, Arnór Ísak Haddsson 1, Dagur Árni Heimisson 1.
Varin skot: Bruno Bernat 8 (25%), Nicholas Satchwell 4 (21%)
Smellið hér til að sjá alla tölfræðina
KA á þessa leiki eftir:
- Stjarnan – KA
- KA – Afturelding
- FH – KA
- KA – Fram
- Grótta – KA
Stelpurnar í KA/Þór höfðu eins marks forskot í hálfleik gegn Selfyssingum en dæmið snerist við í seinni hálfleiknum, gestirnir voru sterkari og unnu býsna örugglega.
Rut Jónsdóttir lék með á ný eftir eins leiks frí vegna meiðsla og gerði fimm mörk fyrir KA/Þór. Matea Lonac lék vel í markinu, varði 18 skot, þar af eitt víti – var með tæplega 41% markvörslu. Cornelia Hermansson í marki gestanna gerði enn betur; varði 19 skot – 47,5% þeirra skota sem hún fékk á sig.
KA/Þór er í 5.-6. sæti deildarinnar og ætti að komast í úrslitakeppnina.
Mörk KA/Þórs: Rut Jónsdóttir 5, Júlía Björnsdóttir 4, Nathália Baliana 4, Ida Hoberg 3, Lydía Gunnþórsdóttir 2, Kristín A. Jóhannsdóttir 1, Anna Mary Jónsdóttir 1, Aþena Einvarðsdóttir 1.
Smellið hér til að sjá alla tölfræði úr leiknum.