Fara í efni
Íþróttir

Hafdís hjólaði 1012 km á 46 klukkutímum

Hafdís Sigurðardóttir á Bjargi um miðjan dag í gær. Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson

Hafdís Sigurðardóttir, hjólreiðakona ársins og Íslandsmeistari, hjólaði 1012 kílómetra á 46 klukkutímum á líkamsræktarstöðinni Bjargi á Akureyri um helgina. Hafdís hjólaði af stað (en fór þó hvergi) klukkan þrjú eftir hádegi á föstudag og lét gott heita um eittleytið í dag, sunnudag. Verkefnið fólst í því að hjóla 22 kílómetra á klukkustund og hún hafði yfirleitt um það bil 13 til 16 mínútur til að hvíla sig eftir hverja törn.

„Þetta var ógeðslega gaman. Það gekk eiginlega allt upp og mér líður ótrúlega vel,“ sagði Hafdís við Akureyri.net eftir að þrekrauninni lauk í dag. Hún þurfti ekki einungis að huga að því að hjóla heldur skipti miklu máli að nærast og hvíldin var sömuleiðis mikilvæg.

Hafdís fékk hugmyndina að þessu ævintýri í sumar þegar svokallað Bakgarðshlaup fór fram; hlauparar þurfa þá að fara 6,7 kílómetra á hverri klukkustund og eru úr leik þegar það takmark næst ekki. Sá sigrar sem einn stendur eftir.

„Mér fannst þetta spennandi og datt í hug að gaman væri að prófa eitthvað sambærilegt á hjóli. Ég veit ekki til þess að það hafi verið gert en auðvitað er það mögulegt einhvers staðar úti í heimi.“ Hún ráðfærði sig við bestu hlauparana og ákvað í framhaldinu að útfæra eigin áskorun.

Hópur fólks hjólaði með Hafdísi, mislengi hver og einn, þá tæpa tvo sólarhringa sem hún hjólaði á Bjargi.

„Það var gaman hve margir komu hérna við. Sumir hjóluðu mjög mikið, aðrir tóku nokkra kílómetra og margir kíktu við til að kanna aðstæður og hvetja mig áfram. Mér fannst það frábært og það var gaman að hafa vinkonur mínar og fjölskylduna með mér í þessu. Fólk var að koma hingað nánast á öllum tímum sólarhringsins.“

Leið ótrúlega vel

Hafdís segir mikilvægt að nærast og það hafi gengið býsna vel. „Stundum drakk ég og borðaði á hjólinu, maður er vanur því úr keppni, en stundum í pásunni. Það var miserfitt, mig langaði ekki alltaf í það sem ég fékk mér, en náði alltaf að kyngja öllu! Ég fékk aldrei í magann og leið eiginlega ótrúlega vel allan tímann.“

Erfiðasti tíminn var frá klukkan fjögur til sex síðustu nótt. „Þá fann ég að einbeitingin var ekki alveg 100%, ekki það að ég væri að missa hausinn, en ég var ekki alveg með fókusinn í lagi. Ég var samt vel áttuð og var fær um að taka réttar ákvarðanir allan tímann í sambandi við næringu. Ég komst svo yfir þetta um sjöleytið. En ég verð að taka fram að ég hefði aldrei getað þetta ein. Ég var með geggjað teymi sem stjanaði við mig. Stundum þegar ég lagði mig nuddaði mig til dæmis einhver.“

Hafdís skráði niður hve lengi hún var að hjóla hverja 22 km auk þess sem hún hélt nákvæmt bókhald yfir það hvernig hún nærðist. Hún var svo með dýnu, sæng og kodda úti í horni eins og sjá má. Þar hvíldist hún stutta stund eftir hverja törn.

„Ég lagði mig stundum í pásunni, var með svefngrímu og reyndi að slappa af. Ég held ég hafi aldrei sofnað en ég náði nokkrum sinnum að dotta í örfáar mínútur. Ég náði yfirleitt að hvílast vel þegar ég lagðist niður, náði þá að útiloka allt annað.“

Hafdís segist ekki hafa sett sér neitt markmið áður en hún hófst handa. „Ég ætlaði bara að sjá til. Var hrædd um að ef ég ákvæði hve lengi ég ætlaði að hjóla myndi ég missa einbeitinguna þegar markmiðið nálgaðist. Það var svo um kvöldmatarleytið í gærkvöldi þegar við vorum að ræða hvernig við færum inn í nóttina að ég spjallaði við þjálfarann minn, hann sagði þá að gaman yrði að komast yfir þúsund kílómetra og það tók mig ekki nema fimm sekúndur að taka undir það. Ég sagði því við stelpurnar að fara að manna vaktir til klukkan eitt á morgun. Ég ætlaði að hjóla þangað til, og stóð við það.“

Hliðarverkefni til skemmtunar

„Ég lagði upp með að þetta yrði algjört hliðarverkefni til skemmtunar. Ég er mjög einbeitt á keppni og framundan er langur og strangur æfingavetur fyrir keppnistíambilið. Ég hef ekki margar vikur til að ná mér niður eftir þetta þannig að ég ætlaði alls ekki að ganga fram af mér. Ég var búinn að segja við alla að ef stefndi í það þá yrði að stoppa mig af! Annars myndi ég skemma fyrir mér undirbúningstímabilið. En svo kom ég sjálfri mér á óvart á hverjum klukkutímanum sem leið. Mér leið ótrúlega vel í líkamanum, fékk aldrei krampa neins staðar en fór aðeins að finna fyrir þreytu í hnjánum undir morgun.“ 

„Þegar ég hjólaði síðustu 22 kílómetrana var hér troðfullur salur af fólki og brjáluð stemning! Fólk hjólaði með mér, bæði hér á staðnum og heima hjá sér; leitaði þá að mér á swift forritinu sem ég nota og hjólaði sömu leið og ég.“

Hafdís hjólaði á svipuðum hraða allan tímann frá því á föstudaginn, var frá 44 mínútum upp í 47 að hjóla þessa 22 kílómetra. „Ég sagði svo við stelpurnar að gaman yrði að taka vel á því í lokin og vera þá með besta tímann. Þá hjóluðu líka með mér nokkrir strákar sem ég þekki þannig að ég gaf allt í þetta og fór vegalengdina á 36 mínútum. Það var lang besti tíminn! Þá hvöttu mig líka allir í salnum vel áfram og ég gleymdi mér alveg í stemningunni!“

Þegar upp er staðið er Hafdís himinlifandi að hafa látið slag standa. „Þetta var ótrúlega gaman og lærdómsríkt. Maður kynnist sjálfum sér ótrúlega vel í svona verkefni, finnur vel hvað maður getur og þolir,“ sagði hjólreiðadrottning Íslands, þreytt en alsæl.