Fara í efni
Íþróttir

Gunnar Malmquist heiðursfélagi í Þór

Hjónin Gunnar Malmquist Gunnarsson og Jóna Arnórsdóttir í Hamri í gær - með Aroni Einari, syni sínum, sem er fastagestur í félagsheimili Þórs í þessu formi! Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson.

Gunnar Magnús Malmquist Gunnarsson var í gær gerður að heiðursfélaga íþróttafélagsins Þórs, á 106. afmælisdegi félagsins. Hann hefur verið í félaginu frá barnsaldri og er leikjahæstur allra Þórsara í handbolta – átti rúmlega 500 leiki að baki í meistaraflokki þegar hann lagði skóna á hilluna árið 1987, eftir 17 ár í meistaraflokki. Það var því vel við hæfi að Gunnar væri gerður að heiðursfélaga daginn sem lið KA/Þórs varð Íslandsmeistari í handbolta kvenna í fyrsta skipti. Titillinn var heldur engin slor afmælisgjöf til félagsins.

Gunnar – aldrei kallaður annað en Gunni Mall á Akureyri – náði að þjálfa alla yngri flokka Þórs á sínum tíma, auk meistaraflokks bæði karla og kvenna. Þá hefur hann verið handboltadómari í áratugi.

Segja mætti að heiðursfélaginn sé tengdur Þór fjölskylduböndum; afabróðir hans, Friðrik Sigurður Einarsson, stofnaði Þór árið 1915 og var fyrsti formaður. Bróðir Friðriks og afi Gunnars, Einar Malmquist, var svo formaður félagsins frá 1925 til 1930. 

Ingi Björnsson, formaður Þórs, sagði í gær að auk alls þess sem nefnt hefði verið, yrði hann að geta sérstaklega þess óvenjulega og stórmerkilega framlagi þeirra hjóna, Gunnars og Jónu Arnórsdóttur, til íþróttasögu Íslands. Ekki er nóg með að synir þeirra séu í hópi fremstu íþróttamanna Íslands heldur eru báðir landsliðsfyrirliðar; Aron Einar hefur um árabil verið fyrirliði landsliðsins í knattspyrnu og Arnór Þór var fyrirliði landsliðsins í handbolta á heimsmeistaramótinu í Egyptalandi í janúar.

Heiðursfélagar Þórs sem mættir voru í afmæliskaffið í gær ásamt formanni félagsins. Frá vinstri: Eiríkur Sigurðsson, Hallgrímur Skaptason, Gunnar Malmquist Gunnarsson, Gísli Kristinn Lorenzson, Herbert Jónsson og formaðurinn, Ingi Björnsson.