Fara í efni
Íþróttir

„Gríðarlega stoltur“ Halldór með Bahrain á HM

Halldór Jóhann stjórnar sínum mönnum í landsliði Bahrain.

KA-maðurinn Halldór Jóhann Sigfússon, sem nú þjálfar Selfyssinga, stýrir liði Bahrain á heimsmeistaramótinu í handbolta, sem hefst í Egyptalandi í næstu viku. Hann er vitaskuld fullur tilhlökkunar, enda er það gamall draumur hans að stýra landsliði sem aðalþjálfari á stórmóti.

Halldór Jóhann vann um tíma fyrir handboltasambandið í Bahrain, þessa eyríkis í Persaflóa, úti fyrir strönd Sádí-Arabíu, en hætti óvænt 2019.

„Hér er fyrirkomulagið þannig að handboltasambandið stjórnar öllu, nema peningamálunum. Ólympíunefndin ræður peningaflæðinu inn í sambandið og eftir að nefndin neitaði að greiða nóg til að hægt væri að hafa tvo þjálfara í fullu starfi hætti ég. Ég var með samning í eitt ár, átti að vinna með Aroni [Kristjánssyni] með A-landsliðið og sjá um yngri landsliðin. En þetta endaði ekki í neinum leiðindum, í þessum bransa þýðir ekkert að hugsa þannig,“ sagði Halldór Jóhann við Akureyri.net í vikunni.

Selfyssingar strax jákvæðir

Handboltasamband Bahrein hafði svo samband við Halldór aftur í haust. Þar á bæ voru menn afar ánægðir með íslenska módelið; störf Guðmundar Þ. Guðmundsson og Arons Kristjánssonar á síðustu árum. „Þeir eru engir aukvisar þannig að ég tek við góðu búi að mörgu leyti en reyni að setja mitt mark á liðið ef tíminn verður nægur. Þeir höfðu innleitt ákveðnar leikaðferðir, bæði varnarlega og sóknarlega, sem forráðamenn hér eru mjög hrifnir af og þurftu einhvern sem þekkti til. Þeim fannst of mikið mál að fá einhvern nýjan svona stuttu fyrir HM. Við spilum nákvæmlega sömu vörn og íslenska landsliðið, vörn sem Gummi innleiddi hér 2016, Aron hélt áfram með og ég fór að láta yngri landsliðin hér spila. Ákveðnir hlutir eru reyndar örlítið öðruvísi en hjá Íslandi en flest er eins. Íslenska 6:0 vörnin hentar mjög vel hér, því í Bahrain glíma menn við sama vandamál og á Íslandi – að vera ekki með marga stóra leikmenn. Þess vegna er mikilvægt að spila mjög aggressíva vörn og fara vel út á móti andstæðingunum.“

Þjóðverji sem tók við af Aroni Kristjánssyni síðastliðið sumar þótti ekki henta í starfið að sögn, og því hafði handboltaforystan í Bahrain samband við Aron á ný. „Hann var fyrstur á blaði en vildi ekki taka verkefnið að sér. Þá leituðu þeir til mín, forráðamenn handknattleiksdeildar Selfoss voru strax mjög jákvæðir, litu á þetta sem frábært tækifæri fyrir mig og að þarna fengi þjálfari þeirra mikla og mikilvæga reynslu. Það væri því í raun jákvætt fyrir alla að þjálfari Selfoss stýrði A-landsliði á heimsmeistaramótinu.“

Halldór Jóhann fór utan 23. nóvember, fáeinum dögum eftir að hann fékk hringingu frá Bahrain, en skaust heim í nokkra daga um jólin.

Mjög spennandi

Hann segir það afar spennandi verkefni að fara með liðið á HM. „Já, gríðarlega spennandi! Þetta er vissulega mjög erfitt verkefni, hér en annað umhverfi en við eigum að venjast heima og önnur menning. Landsliðsþjálfari þarf til dæmis að byrja á því að koma leikmönnum í almennilegt líkamlegt ástand.“

Halldór Jóhann og lærisveinar hans ráðast ekki á garðinn þar sem hann er lægstur í fyrsta leik HM. Mæta heimsmeisturum Dana! „Við leikum svo við Argentínu og Kongó; eigum að vinna Kongó en það er ekkert gefið, þótt ég líti á það sem skyldusigur. Við sjáum svo ákveðna möguleika gegn Argentínumönnum, liðin eru svipuð að styrkleika og við eigum að geta unnið þá á góðum degi.“

Hann segir töluverða reynslu í liðinu, margir leikmanna hans séu um þrítugt og hafi leikið lengi með landsliðinu, sem skipti máli. „Vandamálið er að bestu leikmennirnir spila í Sádí-Arabíu og [Sameinuðu arabísku] furstadæmunum þar sem deildin er ekki sterk. En þetta er samt spennandi, það hefur verið draumur minn síðan ég byrjaði að þjálfa að fara á stórmót sem aðalþjálfari A-landsliðs.“

Halldór segir ekki annað koma til greina en sigra Kongó. „Að mæta Danmörku eða einhverri slíkri stórþjóð er auðvitað allt annað mál. Ef liðið spilar eins vel og það getur er mögulegt að ná viðunandi úrslitum en lið eins og það danska gæti líka tekið okkur í bakaríið. Ég hef aldrei áður verið við í hlutverki lítilmagnans, hvorki sem leikmaður né þjálfari, og eitt helsta verkefni mitt er að laga mig að þeirri staðreynd. Í leiknum við Dani þarf ég til dæmis að hafa leikinn við Argentínu tveimur dögum seinna mjög í huga. Það er ekki hægt að láta alla spila af fullum krafti gegn Dönum, jafnvel þótt það yrði til þess að úrslit yrðu betri en annars, því líkamlegt ástand minna manna er ekki eins og þeirra bestu. Maður verður því að velja sér rétta slaginn – sem ég hef aldrei þurft að gera áður á ferlinum.“

Gríðarlega stoltur

Þrjú lið fara áfram úr hverjum riðli og fari Bahrain áfram – eins og gera verður ráð fyrir – gæti Halldór Jóhann glímt við Dag Sigurðsson, sem stýrir Japönum á mótinu. „Það væri gaman að mæta Degi, sem er með eitt af af fjórum bestu liðum Asíu.“

Bahrain leikur í stóru höllinni í Kaíró, þeirri sömu og Egyptar. Fyrsti leikur þeirra, við Dani, verður 15. janúar, næsta föstudag.

„Ég er fyrst og fremst gríðarlega stoltur að fá þetta tækifæri því ég hef metnað til að ná langt; ég vil komast í atvinnumennsku sem þjálfari. Ég get ekki annað en fyllst stolti þegar ég horfi á hina íslensku þjálfarana sem eru með lið á mótinu, og yfir því að vera nefndur í sömu andrá og Alfreð Gíslason, Guðmundur Guðmundsson og Dagur Sigurðsson. Það var engin spurning í mínum huga að taka við starfinu þegar það bauðst, ég hef mikinn stuðning frá fjölskyldunni, ekki síst konunni minni, Hönnu Láru Ásgeirsdóttur, sem hefur ýtt mér áfram síðustu árin. Það er risastórt verkefni að fara á stórmót og ég veit að ekki verður mikið sofið þennan hálfa mánuð í Egyptalandi! Ég geri það seinna. En tilhlökkunin er gríðarleg, ég veit að ég mun gera mistök og lenda á einhverjum veggjum, en ég veit að ég öðlast reynslu sem ég get tekið með mér í verkefni framtíðarinnar,“ sagði Halldór Jóhann við Akureyri.net.

Halldór Jóhann og eiginkona hans, Hanna Lára Ásgeirsdóttir. Til vinstri með bikarinn þegar FH varð bikarmeistari undir stjórn Halldórs 2019 eftir 25 ára bið. Síðast hafði FH unnið bikarinn 1994, í eftirminnilegum úrslitaleik gegn KA, þegar Halldór Jóhann var með kústinn í Laugardalshöll og þurrkaði svita af gólfinu, 15 ára gamall. Sama ár spilaði hann fyrsta meistaraflokksleikinn með KA!

Halldór Jóhann í leik með KA ásamt Guðjóni Val Sigurðssyni vorið 2001. Til hægri: Með forsetabikarinn á heimsmeistaramóti leikmanna 19 ára og yngri árið 2019. Um hann keppa liðin sem verða neðst í hverjum riðli keppninnar. Halldór vann umræddan bikar bæði með U19 og U21 liði Bahrain, sem er enn besti árangur þjóðarinnar í handbolta.