Gríðarlega sáttur við að ná í þrjú stig
KA-menn unnu glæsilegan sigur á KR, 3:1, á KR-vellinum í kvöld í efstu deild Íslandsmótsins í fótbolta, Pepsi Max deildinni. Þeir eru þar með komnir með fjögur stig eftir tvær umferðir.
KR-ingar unnu öruggan sigur á Breiðabliki í fyrstu umferðinni, þegar KA-menn gerðu markalaust jafntefli við HK í Kópavogi, og því vitað mál að verkefni gestanna yrði snúið í Vesturbænum. Þeir byrjuðu hins vegar af gríðarlegum krafti og voru komnir í 2:0 eftir tæpan hálftíma.
Hallgrímur Mar Steingrímsson gerði fyrsta markið á 10. mínútu; skoraði með hnitmiðuðu skoti rétt utan teigs eftir sendingu Hrannars bróður síns. Brynjar Ingi Bjarnason, sem hóf einmitt þá sókn með langri sendingu fram á Hrannar, kom KA svo í 2:0 með fallegu skallamarki eftir sendingu Hallgríms úr aukaspyrnu. Brynjar skoraði á 28. mínútu og tveggja marka forysta KA var í takti við gang leiksins. Akureyringarnir voru einfaldlega miklu sterkari.
KR-ingar náðu að rétta verulega úr kútnum það sem eftir lifði hálfleiksins, léku vel og Guðjón Baldvinsson skoraði fyrir þá á lokamínútunni.
Heimamenn voru mjög öflugir fyrri hluta seinni hálfleiksins; höfðu mikla yfirburði fyrstu 20 mínúturnar, héldu boltanum vel og sóttu af miklum móð, sköpuðu góð færi en nýttu ekki. Það gerðu KA-menn hins vegar; Hallgrímur Mar gerði annað mark sitt á 79. mínútu með mjög flottu skoti rétt utan teigs eftir sendingu Daníels Hafsteinssonar og tryggði þar með magnaðan sigur. Það er öflugt að vera með fjögur stig eftir tvo útileiki.
„Maður er alltaf sáttur við að vinna leiki, að koma hingað og spila á móti gríðarlega öflugu KR liði, að sækja þrjú stig og skora þrjú mörk, ég er bara gríðarlega sáttur við það að sækja fyrsta sigurinn,“' sagði Arnar Grétarsson, þjálfari KA, við fotbolta.net eftir leikinn. Smelltu hér til að sjá viðtalið.
Heimaleikur á Dalvík
KA-menn mæta nýliðum Leiknis næst á heimavelli á miðvikudaginn kemur. Sá heimavöllur verður reyndar Dalvíkurvöllur að þessu sinni, það iðjagræna teppi, vegna þess að Akureyrarvöllur (Greifavöllurinn) er ekki tilbúinn. Arnar Grétarsson segir m.a. í viðtalinu við fotbolta.net að ef hann fengi að ráða myndi hann vilja spila heimaleikin á Dalvíkurvelli „en á einhverjum tímapunkti þurfum við að spila á Greifavellinum, það er okkar heimavöllur.''
Smellið hér til að sjá leikskýrsluna