Góður sigur Þórs á toppliðinu – MYNDIR
Þórsarar luku athyglisverðu keppnistímabili í gær með 2:1 sigri á Fylkismönnum á heimavelli í Lengjudeildinni, næst efstu deild Íslandsmótsins í knattspyrnu. Lið Fylkis er lang efst í deildinni og fyrir þónokkru búið að tryggja sér sigur og sæti í efstu deild að ári.
Þórsarar luku keppni í sjöunda sæti með 30 stig, jafnmörg og Grindvíkingar sem teljast sæti ofar vegna betri markatölu.
Margir ungir Þórsarar hafa fengið tækifæri á tímabilinu og sumir verið í lykilhlutverkum. Afar áhugavert uppbyggingarferli er í gangi hjá félaginu og gríðarlega spennandi tímar framundan.
- Nánar verður fjallað um ungu leikmennina í Þórsliðinu í vikunni
_ _ _
PERELLÓ SKORAR
Spánverjinn Ion Perelló kom Þór á bragðið á 27. mínútu í gær eftir laglegan undirbúning Alexanders Más Þorlákssonar. Framherjinn fékk boltann við hægra vítateigshornið eftir innkast, sneri á Fylkismenn og sendi á Perelló við miðja vítateigslínuna, Spánverjinn smeygði sér snyrtilega á milli tveggja varnarmanna og sendi boltann í fjærhornið. Mjög vel að verki staðið.
Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson
Ljósmynd: Sævar Geir Sigurjónsson
Ljósmynd: Sævar Geir Sigurjónsson
Ljósmynd: Sævar Geir Sigurjónsson
Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson
Ljósmynd: Sara Skaptadóttir
Ljósmynd: Sara Skaptadóttir
_ _ _
ÆVINTÝRALEG BJÖRGUN BIRGIS
Birgir Ómar Hlynsson kom í veg fyrir að Fylkir næði forystu á 72. mín. þegar hann bjargaði á línu með miklum tilþrifum. Benedikt Daríus Garðarsson (númer 28) skaut að marki, boltinn fór í varnarmann, skrúfaðist yfir Aron Birki markvörð og stefndi í netið þegar Birgir Ómar (númer 3) bjargaði á síðustu stundu.
Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson
_ _ _
SIGURMARK SIGFÚSAR
Þórsarar unnu boltann af Fylkismönnum á eigin vítateig þegar lítið var eftir af leiknum; Sigurður Marinó Kristjánsson potaði til Birgis Ómars sem tók á rás, lék á einn gestanna og linnti ekki látum fyrr en hann var kominn yfir á vallarhelming Fylkis. Birgir sendi þá boltann út til hægri á Harley Willard og Þórsarar voru skyndilega þrír gegn tveimur varnarmönnum. Willard sendi inn á miðju á Alexander Má sem rúllaði boltanum lengra til vinstri þar sem Sigfús Fannar Gunnarsson var í vítateignum og sendi boltann í fjærhornið. Gríðarlega góð skyndisókn sem skilaði sigurmarkinu.
Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson
_ _ _
ORRI BESTUR
Þeir fylgdust með úr stúkunni í gær; Nikola Kristinn Stojanovic, sem meiddist á dögunum er hnéskel fór úr lið, og Orri Sigurjónsson, til hægri, sem glímir líka við meiðsli. Á lokahófi meistaraflokks Þórs í gærkvöldi var tilkynnt að Orri hefði verið valinn besti leikmaður Þórs í sumar, bæði af þjálfurum og leikmönnum.
_ _ _
BJARNI EFNILEGASTUR
Bjarni Guðjón Brynjólfsson er aðeins 18 ára en hefur verið í lykilhluti hjá Þór í sumar. Það kom því engum á að óvart að hann var valinn efnilegasti leikmaður liðsins á keppnistímabilinu. Valið var tilkynnt á lokahófi meistaraflokks í gærkvöldi. Hér er hann með boltann í leiknum í gær og eina ráðið til að stöðva Bjarna Guðjón var að brjóta á honum – einu sinni sem oftar. Til hægri er Ingimar Arnar Kristjánsson sem var í fyrsta skipti í byrjunarliðinu í gær. Ingimar er 17 ára.
Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson
Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson
Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson
Ljósmynd: Sara Skaptadóttir
Smellið hér til að sjá myndband af mörkum Þórs í gær.
Smellið hér til að sjá leikskýrsluna.