Góð staða en Hallgrímur býst við erfiðum slag
KA-menn geta í dag komist áfram í 2. umferð undankeppni Sambandsdeildar Evrópu í knattspyrnu. KA vann fyrri leikinn við Connah's Quay Nomads frá Wales 2:0 á Íslandi fyrir viku og hljóðið í Hallgrími Jónassyni, þjálfara KA-manna, er gott í aðdraganda leiksins í kvöld.
Fyrri leikurinn var á Framvellinum í Úlfarsárdal í Reykjavík og viðureign dagsins fer fram í bænum Oswestry á Englandi, þar sem heimavöllur velska liðsins uppfyllir ekki kröfur Knattspyrnusambands Evrópu fyrir Evrópuleiki frekar en KA-völlurinn.
- Leikur KA og Connah's Quay Nomads hefst klukkan 18.00 að íslenskum tíma í dag. Hann verður sýndur beint á Stöð 2 Sport.
„Við erum í fínni stöðu,“ segir Hallgrímur Jónasson við Akureyri.net, en leggur áherslu á að leikurinn í dag verði án efa miklu erfiðari en sá fyrri. Hans menn verði að vera búnir undir allt; harka gæti orðið mikil og því yrðu allir að vera tilbúnir í alvöru slag.
Skemmtilegt eða leiðinlegt?
„Það er gott að fyrsti Evrópuleikurinn er búinn. Sumir strákanna voru yfirspenntir í fyrri hálfleiknum um daginn, sem er auðvitað eðlilegt því þeir hafa ekki tekið þátt í Evrópuleik áður.“ Í ljósi þess sé mjög gott að fara með 2:0 sigur í veganesti í seinni leikinn.
Hallgrímur segir velska liðið þurfa að koma framar á völlinn í dag en í fyrri leiknum til þess að vinna og komast áfram. „Við verðum að reyna að halda sem mest í boltann og vera tilbúnir að spila í gegnum pressuna þegar þeir koma fram. Þeir eru sterkir í návígjum og hættulegir eftir föst leikatriði. Ég er búinn að segja strákunum við hverju þeir mega búast; leikmenn Nomads gætu orðið dirty en það þýðir ekkert að hugsa um hvort það verður gaman eða leiðinlegt að spila leikinn. Þetta er bara svona og menn verða að vera tilbúnir.“
Þarna talar maður með reynslu úr landsleikjum og Evrópuleikjum. Menn grípa gjarnan til örþrifaráða á þeim vettvangi þegar með þarf ...
Lítið gert úr liðinu
Hallgrímur segir það verða risastórt skref fyrir KA ef liðið kemst áfram í keppninni. „Það er ekki sjálfgefið að KA taka þátt í Evrópukeppni og það hefur verið gert lítið úr þessu velska liði heima á Íslandi, sem kemur mér á óvart,“ segir þjálfarinn. Nefnir að liðið hafi oft leikið í Evrópukeppni og slegið út ágæt lið á undanförnum árum.
Nomads sló út Stabæk frá Noregi fyrir nokkrum árum og í þessari viku eru fjögur ár síðan liðið vann sinn fræknasta sigur í Evrópukeppni. Sá leikur er rifjaður upp á heimasíðu Nomads í dag, væntanlega til að blása leikmönnum og stuðningsmönnum baráttuanda í brjóst.
Það var í júlí 2019 að Nomads mætti skoska liðinu Kilmarnock, sem hafði orðið í 3. sæti skosku úrvalsdeildarinnar og var talið miklu sigurstranglegra, í 1. umferð Evrópudeildarinnar. Velska liðið tapaði fyrri leiknum 2:1 á heimavelli en vann þann seinni 2:0 á útivelli og 3:2 samanlagt.
Þáverandi þjálfari liðsins, Andy Morrison, sagði sigurinn á pari við 4:0 sigur Liverpool á Barcelona um vorið, í einum eftirminnilegasta Evrópuleik Rauða hersins frá Bítlaborginni. Ekki ónýt samlíking! Walesverjar hafa vitaskuld ekki lagt árar í bát og vona það besta í kvöld.
Dusan heima á Íslandi
Eins og Akureyri.net upplýsti í gærkvöldi verður varnarmaðurinn Dusan Brkovic fjarri góðu gamni í dag þar sem ekki fékkst vegabréfsáritun tímanlega fyrir hann til Englands.
„Við unnum fyrri leikinn án Dusans en hann er byrjunarliðsmaður og með reynslu úr Evrópuleikjum þannig að þetta er auðvitað svekkjandi, ekki síst fyrir hann. En svona er staðan bara og við gerum það besta úr þessu,“ sagði Hallgrímur Jónasson þjálfari KA.