Góð frammistaða en Þórsarar úr leik
Þórsarar eru úr leik í bikarkeppninni í knattspyrnu karla, Mjólkurbikarkeppninni, þetta tímabilið en liðið mætti ríkjandi bikarmeisturum, Víkingi frá Reykjavík í átta liða úrslitum á Þórsvelli í kvöld. Þrátt fyrir góða frammistöðu liðsins tapaðist leikurinn 1:2. Ingimar Arnar Kristjánsson gerði mark Þórs í leiknum.
Það var mikil stemming í stúkunni og vel mætt á leikinn enda ekki á hverjum degi sem ríkjandi bikarmeistarar spila á Þórsvelli. Leikurinn byrjaði vægast sagt illa fyrir heimamenn en Helgi Guðjónsson kom Víkingum yfir þegar aðeins þrjár mínútur voru liðnar af leiknum. Ion Perello missti boltann þá klaufalega á miðjunni, Víkingar geystust upp og eftir gott spil fékk Helgi boltann óvaldaður á fjærstönginni og klippti boltann inn.
Helgi Guðjónsson skorar eftir aðeins rúmar þrjár mínútur; „klippti“ boltann glæsilega í markið af stuttu færi eftir fyrirgjöf frá vinstri. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson
Þrátt fyrir markið unnu Þórsarar sig hægt og bítandi inn í leikinn, voru skipulagðir í vörninni og Víkingar áttu í erfiðleikum með að skapa sér opin færi. Á 16. mínútu leiksins náði Ingimar Arnar Kristjánsson að jafna metin. Boltinn barst inn í teig Víkinga og eftir klafs í teignum átti Ingimar skot sem hafnaði í stönginni. Hann var fljótur að átta sig, náði frákastinu og renndi boltanum í netið. Eftir markið var leikurinn jafn. Víkingar voru töluvert meira með boltann en lítið var um færi. Staðan var 1:1 þegar flautað var til hálfleiks.
Seinni hálfleikurinn byrjaði hræðilega fyrir Þórsara því eftir aðeins eina mínútu voru Víkingar búnir að skora. Eftir misskilning tveggja Þórsara á vinstri kantinum náðu Víkingar að komast hratt upp. Boltinn endaði hjá Ara Sigurpálssyni í teignum eftir að heimamenn náðu ekki að hreinsa. Ari fékk nægan tíma í teignum og renndi boltanum í netið og staðan orðin 2:1 Víkingum í vil.
Seinni hálfleikurinn spilaðist eftir þetta svipað og sá fyrri. Víkingar voru meira með boltann en voru ekki að skapa sér færi úr þeim stöðum sem liðið fékk. Þórsarar reyndu hvað þeir gátu til að jafna en færin voru heldur ekki mörg þeim megin. Kristófer Kristjánsson fékk þó góðan séns á 86. mínútu eftir frábæra sendingu inn fyrir frá Ion Perello, Kristófer reyndi að vippa yfir Þórð í markinu en náði ekki að lyfta boltanum nógu vel og Þórður handsamaði knöttinn.
Lokatölur á Þórsvelli 2:1 og bikarævintýri Þórsliðsins er því lokið þetta tímabilið en frammistaðan gegn ríkjandi bikarmeisturum og efsta liði efstu deildar er eitthvað sem Þórsarar geta verið ánægðir með.
Nánar á eftir