Gleðin við völd og Þór sigraði örugglega
Þórsarar áttu ekki í neinum vandræðum með ungmennalið Selfoss sem kom í heimsókn í kvöld í Grill66 deildinni, næst efstu deild Íslandsmótsins í handbolta. Tíu mörkum munaði í lokin, 39:29, eftir að Þórsarar voru fimm mörkum yfir í hálfleik, 18:13.
Halldór Örn Tryggvason stýrði Þórsliðinu í kvöld en hann tók sem kunnugt er við þjálfuninni tímabundið eftir að Stevce Alusovski var sagt upp á dögunum. Halldór var aðstoðarmaður hans en er í feðraorlofi. Nýráðnir þjálfarar, bræðurnir Geir Kristinn og Sigurpáll Árni Aðalsteinssynir voru einnig á bekknum en taka nú alfarið við.
Þórsarar léku að mörgu leyti ágætlega í kvöld og meiri leikgleði og ákefð einkenndi leik liðsins meira en oft hefur verið raunin í vetur.
Mörk Þórs: Kostadin Petrov 10, Jón Ólafur Þorsteinsson 8, Josip Vekic 8, Aron Hólm Kristjánsson 4, Jóhann Geir Sævarsson 4, Halldór Yngvi Jónsson 2, Arnviður Bragi Pálmason 1, Jonn Rói Tórfinnsson 1 og Kristján Páll Steinsson 1.
Varin skot: Arnar Þór Fylkisson 13, Kristján Páll Steinsson 3.
Smellið hér til að sjá ítarlega umfjöllun um leikinn á heimasíðu Þórs.
Smellið hér til að sjá alla tölfræðina.
- Ungmennalið KA leikur einnig í Grill66 deildinni. KA-strákarnir fengu Kórdrengi í heimsókn í kvöld og unnu 33:27. Logi Gautason og Haraldur Bolli Heimisson gerðu 5 mörk hvor fyrir KA og þeir Dagur Árni Heimisson og Skarphéðinn Ívar Einarsson 4 hvor. Smellið hér til að sjá alla tölfræðina úr leiknum.
Þungt hugsi Þórsþjálfarar í kvöld! Frá vinstri, Sigurpáll Árni Aðalsteinsson, Geir Kristinn Aðalsteinsson og Halldór Örn Tryggvason. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson