Glæsilegur árangur Þorbergs Inga í Nice
Ofurhlauparinn Þorbergur Ingi Jónsson varð annar í 60 kílómetra utanvegahlaupi á frönsku rívíerunni í gær. Hlaupið er hluti af sterkustu mótaröð utanvegahlaupa í heiminum ár hvert og árangur Þorbergs afar athyglisverður. Ekki er síður magnað að þrír Íslendingar voru í hópi 10 fyrstu í hlaupinu, hinir voru Þorsteinn Roy Jóhannsson og Snorri Björnsson.
Þorbergur Ingi hljóp vegalengdina á 6 klukkustundum, 8 mínútum og 10 sekúndum. Hann kom í mark um það bil 14 mínútum á eftir sigurvegaranum, Kínverjanum Tao Luo og sá þriðji kom í mark um sjö mínútum á eftir Þorbergi.
Keppt var í fjórum vegalengdum við Miðjarðarhafsströnd Frakklands í vikunni; 165 km, 111 km, 59 km og 17 km skv. vef hlaupsins. Vegalengdin sem Þorbergur hljóp var á dagskrá í gær, á síðasta degi þessar miklu hlaupahátíðar; er raunar ýmist skráð 59 eða 61,2 km. Það skiptir varla meginmáli en ekki fer á milli mála að hækkunin er 3153 metrar.
Þorbergur Ingi var í hópi 1279 hlaupara sem hófu keppni klukkan 6 að morgni í þeirri fallegu strandborg Menton, um 30 km austan við Nice, þaðan var hlaupið upp í fjöllin og stefnan tekin í vesturátt. Hlaupið var gegnum hina ýmsu fjallabæi og 1091 keppandi komst alla leið í endamarkið sem sett var upp á strandgötunni frægu, Promenade des Anglais í Nice.
Eftir blíðviðri síðustu daga rigndi mikið á Miðjarðarhafsströnd Frakklands um tíma í gær.
Hér að neðan má sjá hraða Þorbergs í hlaupinu:
Hér má svo sjá hvar í hópi hlaupara Þorbergur var; hann komst í hóp fimm fyrstu þegar um það bil 20 kílómetrar voru að baki:
Smellið hér til að sjá enn frekari upplýsingar um Þorberg Inga, meðal annars millitíma, og þrjú stutt myndbönd af honum, m.a. þegar hann kemur í mark.
Listi yfir 10 efstu í 61 km hlaupinu af heimasíðu keppninnar: