Fara í efni
Íþróttir

Glæsilegt mark Brynjars Inga í Poznan!

Brynjar Ingi og Birkir Bjarnason fagna eftir að KA-maðurinn skoraði. Skjáskot af RÚV.

Brynjar Ingi Bjarnason, miðvörður úr KA, er kominn í hóp markaskorara A-landsliðsins í knattspyrnu! Ísland og Pólland eigast nú við í vináttuleik í Poznan í Póllandi – leik sem er í beinni útsendingu á RÚV. Brynjar Ingi kom Íslandi í 2:1 snemma í seinni hálfleik með glæsilegu skoti úr miðjum vítateiginum; skoti sem hvaða framherji sem er hefði verið stoltur af!

Gaman er að segja frá því að Akureyringar komu mjög við sögu í báðum mörkum.

  • Ísland komst í 1:0 á 26. mínútu: Guðmundur Þórarinsson tók hornspyrnu, Þórsarinn Aron Einar Gunnarsson sendi boltann á Albert Guðmundsson (þann hálfa Akureyring – son Þórsarans Gumma Ben), sem skoraði með flottri hælspyrnu af stuttu færi.
  • Íslandi komst svo í 2:1 á 47. mínútu. Aron Einar tók aukaspyrnu úti á velli, sendi út til vinstri á Guðmund Þórarinsson, hann gaf fyrir markið og Birkir Bjarnason – sem steig fyrstu sporin á fótboltaferlinum í KA – stýrði boltanum til Brynjars Inga sem hamraði hann upp í þaknetið, óverjandi fyrir Wojciech Szczesny markvörð.

UPPFÆRT Pólverjar náðu að jafna undir lokin og leiknum lauk 2:2.